Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 12:04:52 (503)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:04]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það væri skemmtilegra ef hv. þingmaður hlustaði á andsvarið. — Ég ætla að vona að maður geti ekki dregið neinar ályktanir af þessu. (Gripið fram í: Hann er að koma.) — Ég vil þá fá að auka tímann, frú forseti, ef mögulegt er.

(Forseti (SP): Forseti treystir því að hv. þingmaður verði í salnum, enda kom hann hér með mjög röskum hætti, enda sprettharður mjög.)

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi dæmi um lífeyrisþega sem er með 120 þús. kr. á mánuði í lífeyri og bætur frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun og er með 100 þús. kr. til ráðstöfunar fyrir sjálfan sig. Ég hygg að hv. þingmaður ætti að fara úr sínum fílabeinsturni og kynna sér það að hæsti taxti Eflingar, sem er stéttarfélag hér á landi, er 120 þús. kr. Fjöldi fólks á vinnumarkaði er með lægri tekjur en þetta og það þótt það hafi jafnvel fyrir börnum að sjá, sem ellilífeyrisþegar hafa almennt ekki, og þurfi að borga í félagsgjald og í lífeyrissjóð 4 og 1%, 6 þús. kr. af þessum 120 þús. kr. Þannig er staðan. Ég held að hv. þingmaður ætti að líta út fyrir þingmannslaun sín og átta sig á að það er til fólk í landinu sem ekki er með slík laun.

Hvað varðar umræðuna um opinbera starfsmenn þá er það mál sem ég er margbúinn að nefna. Það er ekki bara svo að þetta sé eins hjá öllum opinberum starfsmönnum heldur eru þeir með B-deild sem er best tryggð, A-deild sem er lakar tryggð og svo eru opinberir starfsmenn sem ekki eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins heldur í SAL-sjóðunum, almennu sjóðunum, og þeir eru verst tryggðir. Ef þessir sjóðir skyldu fara illa, þessir opinberu sjóðir, grípur ríkið inn í. Þeir eru með tryggð réttindi, iðgjaldið er breytilegt og ríkið borgar það. Þá ætti hv. þingmaður að horfa á vextina á markaðnum. Ef þeir fara niður fyrir 3,5% þarf að skerða almennu sjóðina stórkostlega. (Forseti hringir.) Frú forseti. Má ég rétt aðeins ljúka af því að ég byrjaði of seint? Þá þarf að skerða stórkostlega almennu sjóðina.

(Forseti (SP): Hv. þingmaður hefur lokið þeim tíma sem honum er ætlaður í þingsköpum en forseti vekur athygli á að hann getur komið aftur upp í ræðustól.)