Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 12:29:25 (512)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru orðnar fínar umræður, finnst mér. Menn eru svona smátt og smátt að draga fram kjarna málsins. Ég hygg að sá sem hér stendur og hv. þm. Jón Gunnarsson séum sammála um að þjóðfélag geti ekki talist velferðarþjóðfélag nema það sé þannig upp byggt að eldri borgarar og öryrkjar hafi það sem hægt er að kalla mannsæmandi afkomu og geti lifað mannsæmandi lífi.

Komið hefur verið inn á það hér að skattgreiðendum hafi fjölgað. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann álíti ekki, eins og ég, að það megi að hluta til skýra með því að persónuafsláttur hefur verið látinn dragast aftur úr. Þannig hafi mönnum í ríkisstjórnarflokkunum tekist að fjölga skattgreiðendum.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann varðandi þá umræðu sem stundum hefur verið í þjóðfélaginu um það að í framtíðinni, innan kannski eins eða tveggja áratuga, ætti það fólk sem ætti peninga í lífeyrissjóði gulltrygga framtíð, eins og kom fram í máli Ásmundar Stefánssonar. Nú liggur það fyrir, m.a. í þessu skjali hér, að 43% öryrkja eiga alls engar innstæður í lífeyrissjóði. Við munum eftir umræðunni um Lífeyrissjóð bænda á síðasta þingi, en bændur eiga mjög litlar innstæður og laun í lífeyrissjóði.

Við vitum líka að margt láglaunafólk, heimavinnandi húsmæður o.s.frv., á lítil sem engin réttindi í lífeyrissjóði. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að það sé talsvert lengra í þessa gullnu framtíðarsýn heldur en sumir hafa látið í veðri vaka í þessum umræðum.