Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 12:52:17 (518)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:52]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við síðustu spurningunni er svar mitt: Nei, ég tel að það yrði ekki nein kjarabót fyrir aldraða og öryrkja þótt hér yrði settur upp flatur tekjuskattur. Ég þekki skrif hv. þingmanns um þetta efni. Ég hef ekki orðið var við að hann geri ráð fyrir sérstökum persónuafslætti fyrir þessa hópa. Svarið er því: Nei..

Hins vegar þakka ég hv. þingmanni fyrir að benda mér á það sem ég vissi áður, að nú þegar hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar leitt til þess að sú kjarabót sem aldraðir og öryrkjar, sem áttu einhverjar eignir, fengu á síðasta ári í formi niðurfellingar eignarskatta er uppurin og brunnin. Á hvaða báli? Á því báli sem flokkur hv. þingmanns kveikti sjálfur með aðgerðum sem leiddu til þess að húsnæðisverð hækkaði, vegna þess að þök voru hækkuð á lánum og hlutfall lána hækkað, tveimur árum fyrr en hafði verið boðað áður. Þessi lánasprengja leiddi til verðsprengju á húsnæði. Það hefur leitt til þess, eins og hv. þingmaður segir, að eignarskattslækkunin er horfin.

Þar fyrir utan vil ég upplýsa hv. þingmann, úr því að hann er sérstakur áhugamaður um borgarstjórn Reykjavíkur, um að sú borgarstjórn hefur gengið lengra en aðrar sveitarstjórnir í landinu að því varðar sérstakan afslátt af fasteignagjöldum til aldraðra og öryrkja. Ef hv. þingmaður bæri saman framkomu borgarstjórnar Reykjavíkur gagnvart öldruðum og öryrkjum við meðferðina sem sami hópur fær í ýmsum sveitarfélögum þar sem flokkur hv. þingmanns ræður er ég viss um að hann mundi taka þá ákvörðun að sennilega væri best að eldast undir stjórn Reykjavíkurlistans.