Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 13:57:23 (533)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:57]
Hlusta

Þórarinn E. Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að umræða um framtíð Háskólans á Akureyri fari fram í sölum hins háa Alþingis. Á tiltölulega stuttri starfsævi sinni hefur Háskólanum á Akureyri tekist að sanna sig með miklum ágætum. Þegar umræða fer fram um skólamál og rætt er um framhaldsmenntun og háskólamál á Íslandi er Háskólinn á Akureyri ávallt með í þeirri umræðu og er hann jafnan fremstur meðal jafningja þegar það á við. Hinn fríði hópur útskrifaðra nemenda sem gegna ýmsum störfum vítt og breitt um samfélagið bera einnig góðu skólastarfi vitni.

Ég get vitnað um það persónulega því ég hef verið þarna starfsmaður í nokkur ár og það er ekki sjálfgefið að vel takist til í skólastarfi frekar en öðru sem við mannfólkið tökum okkur fyrir hendur. Gamalt spakmæli segir eitthvað á þá leið: Ef þú veist ekki hvert þú ætlar, hvernig geturðu þá búist við því að komast þangað? Háskólinn á Akureyri hefur alltaf haft nokkuð skýra stefnu og markmið og hvet ég þingmenn sem aðra til að kynna sér hana t.d. á heimasíðu skólans unak.is. Þar segir m.a. um hlutverk skólans, með leyfi forseta:

„HA býður kennslu og sinnir rannsóknum sem tengjast náið atvinnulífi þjóðarinnar og stuðla að framþróun þess. HA býr nemendur af kostgæfni undir fjölbreytt störf í alþjóðlegu þekkingarsamfélagi í sátt við umhverfi sitt og með vakandi auga fyrir þeim kostum sem hvert landsvæði býður upp á. Háskólinn ljær þeim að auki trausta heimanfylgju til símenntunar og framhaldsnáms á fræðasviðum sínum.“

Háskólinn á Akureyri hefur þannig ávallt leitast við að vera í sem bestu sambandi við atvinnulífið og rannsóknir atvinnuveganna. Þá tengingu þarf að styrkja og efla og skólinn þarf þannig að vera í takt við samfélagið á hverjum tíma. Fagleg samkeppni milli háskóla er nauðsynleg og gerir bara gott starf betra. Þannig hefur háskólanám á Íslandi eflst með tilkomu Háskólans á Akureyri. Byggðarlegt mikilvægi HA er einnig óumdeilanlegt og hefur staðfest skólabæinn Akureyri á Íslandskortinu í byrjun aldar, raunar nákvæmlega eins og Menntaskólinn á Akureyri gerði í byrjun þeirrar síðustu. Alltaf má gera betur en þegar litið er til baka hefur tekist vel til með uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Sú reynsla hvetur okkur til að stíga enn betur í ístaðinu við áframhaldandi uppbyggingu skólans og ég treysti því að svo verði gert.