Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 14:13:02 (537)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:13]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrr í morgun fór ég í andsvör við hv. þm. Össur Skarphéðinsson um sama mál og vil í framhaldi af því spyrja hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur spurninga. Sú snerra sem við Össur tókum í morgun var á þá vegu að ég spurði hv. þingmann hvort aðgerðaleysi borgarstjórnararms Samfylkingarinnar í fasteignagjöldum til handa eldri borgurum á höfuðborgarsvæðinu sé að valda því að sú mikla kjarabót sem var samþykkt hér á síðasta ári, lækkun eignarskatts, hafi hreinlega fuðrað upp hjá eldri borgurum á höfuðborgarsvæðinu. Hann svaraði á þá leið að það væri ríkisstjórninni að kenna hvernig fasteignamarkaðurinn hefði þróast.

Ekki er langt síðan við hv. þingmenn í sölum Alþingis samþykktum frumvarp sem félagsmálaráðherra lagði fram um 90% lán til handa Íbúðalánasjóði þar sem allir hv. þingmenn Samfylkingarinnar samþykktu tiltekið frumvarp og opnuðu um leið á þær gáttir sem hafa valdið þeirri miklu þenslu sem einkennir fasteignamarkaðinn í dag. (Gripið fram í.) Telur hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir eðlilegt að hennar fyrrverandi formaður leggi slík rök í svörum sínum við þessari spurningu minni? Getur verið, frú forseti, að Samfylkingin eigi jafnmikla ábyrgð á því og aðrir flokkar að fasteignamarkaðurinn sé í þeirri þenslu sem hann er, getur það verið? Ég held svo, já.

Í upphafi ræðu sinnar áðan sagði hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir að landsfundur Sjálfstæðisflokksins skilaði af sér engu öðru en marklausum plöggum. Ég spyr í lok andsvars míns: Er þetta bara allt saman marklaust tal þegar talsmenn Samfylkingarinnar mæta hér sem riddarar á hvítum hesti í röðum, auglýsa í útvarpi þessa ræðu svo allir fylgist með, en eru svo sjálfir ábyrgir þeim miklu álögum á herðar eldri borgara í formi fasteignagjalda á undanförnum missirum? (Gripið fram í.)