Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 14:30:33 (543)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:30]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig athyglisvert að hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson kjósi að reyna að beina athyglinni frá því umræðuefni sem hér er, sem er afkoma lífeyrisþeganna í landinu.

Hvað varðar fasteignagjöld í Reykjavík, sem ég hef þó ekki fylgst nægilega náið með hin síðari ár, verandi varaborgarfulltrúi nú, þá veit ég ekki betur en við veitum afslætti af fasteignagjöldum til lífeyrisþega, þess hóps sem hér er verið að tala um, 100%, 80% og 50%, og þær tilvísanir sem hv. þingmaður er með eigi ekkert við um þann hóp þó að vissulega hafi fasteignaskattar hjá ýmsum fasteignaeigendum og m.a. úr hópi aldraðra þyngst verulega á síðari árum. Það hefur hins vegar ekki farið eftir sveitarfélögum eða eftir því hvaða pólitíski meiri hluti hefur verið. Það hefur einfaldlega fylgt þróun fasteignaverðs í landinu.

Ég vil hins vegar nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort hann styðji þá aðför að hreyfihömluðum sem gefur að líta í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir komandi ár og hvort hann sé talsmaður þess, varaformaður félagsmálanefndar, að 100 þús. kr. árlegur stuðningur við nærri sjö þúsund hreyfihamlaða Íslendinga verði af þeim tekinn með einu pennastriki. Ég treysti því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson geti greint okkur frá afstöðu sinni til þess grundvallarmáls sem nú er til umfjöllunar í sölum Alþingis.