Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 15:37:54 (552)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég tel afskaplega mikilvægt að hér á Alþingi sé umræða um efnahagsmál og að flokkarnir geti sagt sínar skoðanir á þeim eins og flokkur hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hefur gert.

Ég get tekið undir það markmið sem kemur fram í þessari tillögu að miklu leyti, sérstaklega það sem segir í fyrstu liðunum með hliðsjón af mikilvægi þess, nema kannski það sem segir í síðasta liðnum að jafnvægi náist á nýjan leik í þjóðarbúskapnum almennt. Ég tel ekki að óskaplegt hættuástand ríki í þjóðarbúskapnum eins og hv. þingmaður heldur fram. Það gengur vel í íslensku efnahagslífi og hv. þingmaður talar um að við sem stöndum fyrir ríkisstjórn landsins séum að senda röng skilaboð. Þetta er ekki aðeins álit okkar heldur virtra fjármálastofnana og margra annarra aðila erlendis. Það sýnir sig m.a. í því að menn hafa trú á íslensku krónunni og eru að kaupa skuldabréf þó það komi á óvart hversu mikið það er og ég get tekið undir að það eru ákveðin hættumerki í því. En þetta er vandamálið sem felst í að reka lítið hagkerfi á alþjóðlegum markaði, hagkerfi sem er opið fyrir peningalegum straumum bæði inn og út. Alltaf er vandasamt að reka slíkt hagkerfi en það hefur tekist mjög vel. Það er einstakt í heiminum að á undanförnum 10 árum hefur okkur tekist að auka kaupmátt launa um 60% og á næstu tveimur árum eru áætlanir um að kaupmáttur muni aukast um ein 5%, þ.e. á árunum 2006–2007 eða rúm 5% ef bæði árin eru talin með. Ég vona að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður að það er mjög mikilvægt að það takist að halda áfram að bæta kjör almennings í landinu og að jafnframt höfum við svigrúm til að bæta opinbera þjónustu og viðhalda og efla velferðarkerfi okkar.

Í þessu sambandi er mikið talað um skattalækkanir og sagt að nú sé mikilvægast af öllu að draga þær til baka. Það segir í þessari tillögu að hætt skuli við skattalækkanir og í staðinn komi aðgerðir til að bæta tekjulægstu hópa samfélagsins og barnafjölskyldna. Ég veit ekki betur en að á næsta ári verði barnabætur hækkaðar um 1.200 millj. og 1.200 millj. á árinu 2007. Ég vænti þess að það sé ekki verið að tala um að hætta við það. Síðan segja menn að tekjuskattslækkunin, þ.e. prósentulækkunin komi ekki nægilega vel þeim til góða sem minnstar hafa tekjurnar. En ég bið menn að líta ekki aðeins til þeirra tekna sem fjölskyldur hafa heldur líka þeirrar greiðslubyrði sem þær hafa. Þær fjölskyldur sem hafa mesta greiðslubyrði í þessu þjóðfélagi eru fjölskyldur sem eru að stofna heimili og það er almennt millitekjufólk, fólk sem þarf að vinna mikið til að koma upp heimili. Þetta fólk þarf að borga af húsnæðislánum, af námslánum og með börnunum sín á dagheimilum og þetta fólk þarf því að vinna mikið til að standa undir útgjöldum heimilanna.

Ég verð var við það hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þeir vilja eingöngu líta til teknanna í þessum umræðum. Það liggur fyrir að þeir sem minnstar hafa tekjurnar í þjóðfélaginu eru m.a. eldri borgarar á tiltölulega lágum bótum en það fólk hefur ekki sömu greiðslubyrði og þeir sem eru að stofna heimili. Þetta fólk greiðir hins vegar oft og tíðum háa eignarskatta sem nú er verið að fella niður sem mun koma því fólki mjög til góða.

Það sem hér er lagt til er að taka upp eitthvað sem heitir bann við tilteknum iðnaði í landinu eins og hann sé eitthvað sérstaklega hættulegur. Hvar á að draga mörkin? Hvað er vondur iðnaður og hvað er góður iðnaður? Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telja að það sem þeir kalla stóriðju séu af hinu vonda. Það séu hlutir sem alls ekki eigi að fara í þó að það byggi á orkulindum þjóðarinnar og sjálfbærri þróun eins og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu. Auðvitað byggir það á sjálfbærri þróun. Þetta er ein af mikilvægustu auðlindum landsins. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina að senda út þau skilaboð að ekki verði ráðist í slíkt á næstu 10 árum.

Það er áhugi fyrir því að stækka meira uppi í Hvalfirði, ekki mjög mikið. Á að leggja bann við því? Það stenst engar reglur í samskiptum milli atvinnulífs og ríkisvalds og að sjálfsögðu verður það ekki gert.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni að útlán bankakerfisins hafa verið mjög mikil. Ég vænti þess að þar sé farið að hægja á og af því að hér er rætt um að beina þeim tilmælum til Seðlabanka Íslands að hann beiti aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum þá hefur verið farið yfir það mál. Það er mikilvægt að hafa í huga í því samhengi að bankarnir geta tekið lán erlendis á frjálsum markaði eins og þeir vilja og þeir hafa mikið lánstraust. Seðlabankinn telur að það úrræði kæmi ekki að notum.

Frú forseti. Ég hefði mikla ástæðu til þess að fara miklu ítarlegar í gegnum þessi mál en hér er mjög skammur tími og ég vænti þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skilji að ég hef engan möguleika á að gera því öllu skil sem hann hefur komið inn á. Hann bað mig um að vera viðstaddur þessa umræðu sem ég féllst að sjálfsögðu á fyrst ég hafði tækifæri til þess.