Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 15:46:36 (553)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:46]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þátttöku í umræðunni. Auðvitað höfum við fullan skilning á því að hvorki hann né í raun nokkurt okkar sem ræðum um málin í takmarkaðan tíma getum gert því tæmandi skil. Ég endurtek óskir mínar um að aðrir ráðherrar úr ríkisstjórninni sem þetta mál snertir sérstaklega, og þeir eru margir fleiri en hæstv. forsætisráðherra þó hann fari með yfirstjórn efnahagsmála, verði við á mánudaginn þegar tillagan verður væntanlega rædd áfram. Sérstaklega áhugavert væri að fá hæstv. sjávarútvegsráðherra og ráðherra málefna iðnaðarins til þess að vera hér og ræða starfskjör og aðstæður þeirra greina.

Hæstv. ráðherra telur að í sjálfu sér séu markmiðin góðra gjalda verð, flest þau sem sett eru upp í tillögunni. En mat hans á ástandinu er greinilega í grundvallaratriðum frábrugðið því sem ég hef og ég tel mig ekki vera einan þar á ferð, samanber þau gögn sem ég hef vitnað í og lesið upp úr frá Seðlabanka, viðskiptabönkunum og fleiri sérfróðum aðilum. Hæstv. ráðherra telur sem sagt að það gangi mjög vel í íslenskum efnahagsmálum og reiðir fram til vitnis álit erlendra fjármálastofnana.

Jú, þær eru margar hverjar hrifnar eins og þær eru forritaðar af þeirri nýfrjálshyggjustefnu sem hér hefur verið fylgt og hrósa henni yfirleitt þangað til allt er komið í kalda kol. Það gerðu þær t.d. gagnvart ríkjum Mið- og Suður-Ameríku sem einkavæddu og fylgdu sömu stefnu, eins og Argentína þangað til allt hrundi. En þó verður líka að geta þess að þær hinar sömu alþjóðastofnanir hafa mælt mjög alvarleg varnaðarorð líka sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar minnast sjaldan á, t.d. hvað varðar stóraukna skuldsetningu þjóðarbúsins. Ég hef lesið það mjög grannt og í skýrslum OECD, Alþjóðabankans og fleiri aðila er þó ævinlega sleginn sá mikli varnagli að veikleikarnir í íslenska efnahagsundrinu sem stundum er kallað svo felist í hinni gríðarlegu skuldsetningu.

Þegar hæstv. ráðherra og aðrir tala um aukningu kaupmáttar er rétt að menn muni tvennt. Launa- og lífskjaramunur á Íslandi hefur vaxið gríðarlega. Við erum að tala um meðaltöl og hitt að hagvöxturinn er að verulegu leyti drifinn áfram af einkaneyslu og skuldsetningu.