Staðgreiðsla opinberra gjalda

Þriðjudaginn 18. október 2005, kl. 16:48:28 (660)


132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

18. mál
[16:48]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Arnbjörgu Sveinsdóttur kærlega fyrir undirtektir hennar. Ég held að það sé hárrétt sem hv. þingmaður nefndi og ég gat um í ræðu minni, að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur þegar tekið efnislega afstöðu í þessu máli, tekið afstöðu til þeirra lagaákvæða sem fram koma í frumvarpinu og þeirra breytinga sem þar er lagðar til. Það væri í sjálfu sér furðulegt ef að nefndin kæmist að annarri niðurstöðu nú, fáum mánuðum eftir að málið var þar síðast til meðferðar.

Ég veit að þeir hv. þingmenn sem sitja í nefndinni eru samkvæmir sjálfum sér. Þeir ættu af þeirri ástæðu að geta klárað þetta mál hratt og vel í nefndinni þannig að frumvarpið geti sem allra fyrst orðið að lögum og dómstólar landsins þurfi ekki að komast að niðurstöðum eins og þeim sem við höfum orðið vitni að á síðustu mánuðum og missirum. Þær geta ekki talist sanngjarnar og koma sérstaklega illa niður á fólki sem hefur ekki sýnt þann brotavilja að ástæða sé til að refsa því, líkt og við séum að refsa brotamönnum eða glæpamönnum. En kerfið eins og það er núna og lögin sem dæmt hefur verið eftir eru á þá leið að fólkið, sem við hugsum um og tölum fyrir í þessu máli, er í raun sett á sömu hillu og þeir sem einskis svífast í að brjóta gegn (Forseti hringir.) þeim skattareglum sem hér gilda.