Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 14:43:05 (1175)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni athyglisvert mál sem vonandi felur í sér réttarbætur þótt, eins og bent hefur verið á, úttekt vanti á reynslunni af síðustu lagabreytingu og hverju hún skilaði. En mikill meiri hluti, líklega um 90% barnanna, eru í forsjá móður.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort skoðaður hefði verið sá möguleiki, eða kannað, hvort taka ætti einhvern veginn á raunverulegri sameiginlegri forsjá, þar sem barn er viku hjá móður og viku hjá föður. Þar er hnífjöfn skipting og allt skiptist jafnt. Það er raunveruleg sameiginleg forsjá en svo er í langfæstum tilfellum. Í langflestum tilfellum er barnið hjá öðru hvoru og í langflestum tilfellum hjá móður. Það er á hreinu. En þar sem um er að ræða raunverulega sameiginlega forsjá með barni, þar sem barnið er nákvæmlega jafnlengi til skiptis hjá föður og móður, hefur þá verið skoðað að meðlag skiptist í þeim tilfellum sjálfkrafa til jafns á milli beggja foreldra. Hefur sú breyting verið skoðuð hvað varðar 3. greinina, sem kveður á um að meðlagsgreiðslur með barni skuli ávallt ákveða við skilnað foreldra að borði og sæng eða lögskilnaði o.s.frv.? Hefur verið ákveðið að þar sem um er að ræða raunverulega sameiginlega forsjá skiptist meðlag jafnt á milli foreldra sem og aðrir hlutir sem lúta að uppeldi barna og aðkomu hins opinbera að því.