Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 14:49:16 (1179)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:49]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar. Þar er um afar áhugaverð nýmæli að ræða eða við skulum kannski segja framhald á þeim umræðum og þeirri vinnu sem fram hefur farið í þinginu varðandi barnalögin. Í þeirri vinnu sem var í hv. allsherjarnefnd fyrir þremur árum þegar við afgreiddum barnalögin var mikið af nýmælum. Þá var ákveðið á sínum tíma að ganga ekki eins langt og gert er núna heldur fyrst og fremst að tryggja að börnunum væri búinn góður staður, og það varð auðvitað reynslan samkvæmt skýrslu forsjárnefndar að í 90% tilfella er um sameiginlega forsjá að ræða.

Við ákváðum það í sérstöku augnamiði í hv. allsherjarnefnd á sínum tíma að ganga ekki það skref sem við erum að ganga núna vegna þess að við vildum fá reynsluna af hinu fyrst og sjá hvernig það gengi. Sú reynsla er góð. Ég hefði viljað gefa þessu örlítið lengri tíma. Það verður líka spennandi fyrir okkur í allsherjarnefnd að heyra hvað sifjalaganefnd mun segja okkur um málið en hún er starfandi allan ársins hring.

Það sem ég er alltaf með varann á — það er kannski vegna vinnu minnar áður en ég kom til þings — er að við verðum alltaf að hafa gleraugun á því hvað er börnunum fyrir bestu hverju sinni. Í 10% þessara tilfella geti verið mjög erfiðar aðstæður fyrir börn og hjón. Þess vegna er mikilvægt að sú varúð sem er sett í 1. gr. verði hreinlega styrkt enn frekar, þ.e. að það sé ekkert sem mæli gegn slíkri ráðstöfun þannig að við höfum rauninni þá félagssögu að baki þar sem erfiðleikar hafa verið.

Ekki má gleyma því að einnig hefur verið talið mjög mikilvægt að í hendur haldist fræðsla og boðið sé upp á viðtöl og ráðgjöf fyrir fólk við skilnað. Það er eitthvað sem við þurfum að gera enn frekar og var mikið rætt í hv. allsherjarnefnd þegar þetta var síðast til skoðunar.

Ég veit að mjög margir eru glaðir yfir þessu frumvarpi, fólki finnst við vera á réttri braut. Ég hef hins vegar alltaf sagt að við eigum að flýta okkur hægt þegar hagsmunir barna eru annars vegar, en auðvitað hef ég líka alltaf verið reiðubúin til að skoða ákveðnar breytingar.

Það sem mér finnst skipta mjög miklu máli er þessi ráðgjöf, eins og ég nefndi áðan. Við þurfum líka að gera frekari úttektir, ekki einungis að fá skýrslu forsjárnefndar, að það sé ekki bara hún ein sem dugi. Við megum heldur ekki gleyma því að Ísland er með algjöra sérstöðu að því leyti að það er eitt af Norðurlöndunum og sennilega í Evrópu þar sem þetta nær líka yfir fólk í sambúð. Sameiginleg forsjá á yfirleitt aðeins við um hjónabönd annars staðar. Þess vegna höfum við oft rætt það í þessum stól að við séum alltaf að gefa sambúðinni ígildi hjónabands með ýmsum réttindum og skyldum þannig að sambúðin verður í rauninni aldrei raunhæft val. Það er eitt af því sem er mjög gaman að ræða og væri mjög gaman að setja vinnu í í hv. allsherjarnefnd. Ég veit að við munum vinna vel í því máli og kalla fram upplýsingar.

Við megum heldur ekki gleyma að það er verið að snúa til baka í Svíþjóð. Við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr fimmtán manna nefndinni í Danmörku. Það er mjög mikil gerjun í þessum málum núna á Norðurlöndunum vegna þess að hin faglega gagnrýni hefur gengið út á það að þetta hafi verið svo foreldramiðað í stað þess að vera barnamiðað og það sé í rauninni það sem við erum svolítið að bíta í halann á okkur með, að við höfum verið að flýta okkur of hratt, við séum alltaf að hugsa um hagsmuni foreldranna en ekki hagsmuni barnanna.

Þess vegna er áhugavert að nefna það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi áðan og við ræddum það í hv. allsherjarnefnd í síðustu vinnslu á barnalögunum að ef foreldrar, fólk þarf í raun og veru — nú legg ég til að hv. þingmenn leggi við hlustir — að rífast yfir því og hafa áhyggjur af því að meðlagið milli foreldranna skiptist ekki jafnt af því að skipting barnsins sé jöfn á milli foreldra, þá hef ég alltaf sagt að það sé kannski fólkið sem þurfi örlitla ráðgjöf og örlítinn stuðning. Því að það kostar meira en eitt meðlag að sjá fyrir barni. Og þá þarf kannski að sýna vel hvað kostar að sjá fyrir barni og meðlagið er hluti af því, þetta er það fjármagn sem það fær og það dugar ekki einu sinni fyrir leikskóla. Það þarf því að gera fólki grein fyrir kostnaðinum við barnið og segja síðan: Viðkomandi greiðir meðlagið, það fylgir, það er alveg óhjákvæmilegt hvað sem hangir hinum megin á spýtunni. En þá þarf fólk ráðgjöf við að leysa slík mál því að þau eru oft yfirvarp um einhverja óánægju frekar en það sem raunveruleikinn snýst einmitt um.

Við ræddum í hv. allsherjarnefnd síðast um skiptingu á meðlagi og það var eiginlega samdóma álit að við færum ekki að fara þangað, við förum ekki þangað. Við þurfum að veita fólki ráðgjöf, fjármálaráðgjöf og annað þannig að kostnaður verði jafn á milli foreldra sem skilja varðandi forsjá barnanna, við þurfum að leysa það á annan hátt en að skipta meðlagi upp. Það á líka við um húsaleigubætur og annað, það þarf bara að fara með þetta í almennilega ráðgjöf heimilanna. Það sýnir okkur jafnframt að ráðgjöf og stuðningur er afar mikilvægur, því að það er mjög mikið mál að skilja og það er mikið mál að ala upp börn og bera ábyrgð á börnum. Það er því mjög margt í þessu.

En ég vil minna á og við munum í hv. allsherjarnefnd kalla eftir gögnum varðandi þróunina núna í Skandinavíu því að þar eru hlutirnir á fullri fart. Við eigum ekki að flýta okkur of hratt, við eigum að gera hlutina vel, við höfum alltaf borið gæfu til þess og við eigum að gera það.

Margt annað er hér einnig til bóta, góðar viðbætur. Ég hafði reyndar örlitlar áhyggjur af því hvað varðar ættleiðinguna um að ekki þyrfti að fá umsögn barnaverndarnefndar, það væri algjörlega óþarft. Ég velti því fyrir mér að við þyrftum kannski að hafa orðalagið í 5. gr. örlítið skýrara, að við séum í rauninni að tala um það þegar viðbúin er synjun. Það þyrfti einhvern veginn að koma örlítið skýrar fram í frumvarpstextanum. Það er ekki nægjanlegt að það komi fram í greinargerðinni því að þetta gæti líka snúist um að ekki þyrfti að afla sérstaks leyfis í öðrum málum, t.d. fósturmálum. Barn væri kannski búið að vera á tilteknum stað alla tíð, þá þyrfti það ekki að fara í gegnum eitthvert þungt ferli. Ég er því að hugsa um þá jákvæðu hlið sem það gæti leyft. Við þurfum þess vegna aðeins að skoða orðalagið svo það valdi ekki misskilningi.

Ég efast ekki um að við eigum eftir að fá mjög góðar og gagnlegar umræður í hv. allsherjarnefnd. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur flutt frumvarp um þetta mál og hefur ákveðið að flytja það aftur eftir að lendingin í hv. allsherjarnefnd varð ekki eins og hún óskaði, en það er nú bara vegna þess að við vildum láta reyna á þetta fyrst. Ég var líka mjög sátt við að ekki var gengið alla leið eins og skýrslan frá forsjárnefndinni segir til um að úrskurða megi með dómi. Ég er mjög fegin að hæstv. dómsmálaráðherra fór ekki alla leið. Ég held að við verðum að taka þetta í skrefum með hagsmuni barnanna að leiðarljósi og ekki síst hagsmuni þeirra barna sem eru um 10% af þessum skilnaðarbarnahópi sem eiga við verulega mikla erfiðleika, ofbeldi og annað að stríða. Við verðum að hugsa um þau börn og þá vil ég fremur hafa minna opið en meira til þess að tryggja þó þeim tíu prósentum góða umönnun og góða framtíð.