Umhverfismat áætlana

Mánudaginn 21. nóvember 2005, kl. 17:13:24 (1971)


132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Umhverfismat áætlana.

342. mál
[17:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í síðustu viku var kvartað úr þessum ræðustóli undan leti eða afkastaleysi ríkisstjórnarinnar. Umhverfisráðherra er þá kannski sá ráðherra sem stendur upp úr í þessum efnum, hún er búin að tala fyrir sínu fjórða máli í dag og fagna ég því. Ég fagna því sérstaklega að nú skuli komið fram frumvarp af þessu tagi, til laga um umhverfismat áætlana. Það er rétt sem hv. þm. Mörður Árnason gat um áðan, þetta er frumvarp sem við höfum lengi beðið eftir, kallað eftir aftur og aftur, og það er vonum seinna að hæstv. ríkisstjórn ákveður nú að innleiða þessa tilskipun. Hér er einmitt dæmi um mál sem við hefðum með góðu móti getað lögfest löngu áður en Evrópusambandið gaf okkur tilskipun um að gera það. Það var ekki af því að skort hafi hvatningu til hæstv. ríkisstjórnar um að lögleiða einmitt umhverfismat áætlana af þessu tagi, heldur eingöngu sú lenska sem virðist vera hjá hæstv. ríkisstjórn að láta alltaf reka á reiðanum í þessum efnum og lögfesta ekkert fyrr en frestirnir frá Evrópusambandinu eru runnir út.

Ég hef rekið mig á þetta aftur og aftur, kannski sérstaklega í þeim málaflokki sem ég hef sinnt hvað ötullegast á þinginu, þ.e. umhverfismálunum. Ég hef samt grun um að svo sé í fleiri málaflokkum.

Það kom líka fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar, sem ég ætlaði svo sem líka að gera að umkvörtunarefni, að það hefði verið gott að hafa þetta mál lengur til skoðunar en raun ber vitni. Þessu var breytt á föstudaginn en eins og hæstv. umhverfisráðherra og starfslið hennar veit auðvitað best vorum við á umhverfisþingi þann dag þannig að ég náði ekki að koma höndum yfir þetta frumvarp fyrr en í morgun og hef þess vegna ekki getað þaullesið það. Ég geri mér fyrir vikið ekki fulla grein fyrir því hvað beinlínis er fólgið í þeim ákvæðum sem gerð er grein fyrir hér í einum 13 lagagreinum. Það bíður betri tíma og meðferðar í nefndinni að sjá ofan í hörgul á hvern hátt á að framkvæma umhverfismatið. Hins vegar rekur maður sig strax á það að í skilgreiningargrein frumvarpsins, 2. gr., er umhverfi skilgreint á ákveðinn hátt sem tilgreint er í greinargerð að sé nákvæmlega að fyrirsögn tilskipunarinnar. Það stingur mann samt óneitanlega í augun að í lögunum um mat á umhverfisáhrifum er skilgreiningin á umhverfi nokkuð önnur. Til þess að bera þetta saman, frú forseti, er skilgreiningin í lögunum um mat á umhverfisáhrifum svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.“

Á sama tíma erum við með skilgreiningu á umhverfi í þessu frumvarpi sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Samheiti fyrir samfélag, heilbrigði manna, dýr, plöntur, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, eignir, menningararfleifð, þar með talið byggingarsögulegar og fornleifafræðilegar minjar, og landslag og samspil þessara þátta.“

Ég held því ekki fram að önnur skilgreiningin sé hinni betri en það er skrýtið að þegar lögin virðast eiga að harmónera saman skuli skilgreiningin á grundvallarhugtakinu umhverfi vera jafnólík og raun ber vitni. Það væri ágætt að fá frá hæstv. umhverfisráðherra einhver sjónarmið varðandi það.

Af hverju höfum við sem störfum í þessum þingsal kallað eftir þessu frumvarpi undanfarin ár? Jú, vegna þess t.d. að við höfum innleitt og samþykkt stórar og miklar áætlanir á borð við náttúruverndaráætlun á síðasta ári, áætlun um landshlutabundna skógrækt, fleiri en eina, og við höfum verið með landgræðsluáætlun til umfjöllunar, stórar áætlanir sem landbúnaðarráðherra hefur gert okkur grein fyrir, reyndar ekki heildstætt, um fiskeldi austur á fjörðum. Allt eru þetta dæmi um áætlanir. Og ég má nú ekki gleyma þeirri stærstu sem mér finnst sú sem hefði kannski helst af öllu þurft að fara í gegnum eitthvert svona ferli og það er rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Kannski má segja að í kringum þá áætlun hafi verið búið til ákveðið módel sem má segja að hafi verið umhverfismat á virkjanakostum. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er orkuöflunaráætlun þannig að hún sem slík er mjög gott dæmi um það sem gera þarf. Þegar stórar áætlanir eru til umfjöllunar í stjórnkerfinu þarf auðvitað að skoða þær ofan í kjölinn út frá þeim sjónarmiðum sem eðlilegt er að notuð séu sem viðmiðanir. Ég held að módelið sem fundið var upp af því ágæta fólki sem vann fyrri hluta rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sé einhvers konar módel sem við af eigin rammleik bara fundum þar upp. Ég held að það sé mjög fínt módel sem við getum skoðað í tengslum við nákvæmlega þetta frumvarp, bara til að spyrja okkur spurningarinnar: Er hér verið að fyrirskipa einhvers konar aðferð sem gæti kallast á við eða samsvarað þeirri aðferð sem starfshóparnir fimm tileinkuðu sér þegar þeir unnu rammaáætlunina um nýtingu vatnsafls og jarðvarma?

Ég taldi jafnvel á sínum tíma þegar við fórum upphaflega í þessum sal að ræða Kárahnjúkavirkjun, sem hét reyndar Fljótsdalsvirkjun í upphafi, sem átti að fæða stórt álver á Austfjörðum með orku að þar gæti jafnvel verið um svo stórt plan að ræða að það hefði getað heyrt undir ákvæði tilskipunarinnar um umhverfismat áætlana. Stór hluti landsvæðisins á Austfjörðum verður fyrir verulegum umhverfisáhrifum af einni tiltekinni framkvæmd, þ.e. virkjun og álveri, orkuöflun fyrir álverið og öllu sem þarf í raun og veru til að álver geti fengið til sín þá orku sem það þarf, öllum háspennulínunum sem þurfa að fara um fjöll og dali. Á þeim tíma þegar við byrjuðum að ræða þetta mál var verið að hugleiða orkuöflun frá tvenns lags virkjunum, annars vegar frá jarðvarmavirkjun á Mývatnssvæðinu eða Þeistareykjasvæðinu, og hins vegar frá vatnsaflsvirkjun norðan Vatnajökuls. Ég taldi að það hefði verið dæmi um framkvæmd sem hefði átt að lúta þessum lögmálum og þessum ákvæðum tilskipunarinnar um umhverfismat áætlana.

Allar þessar áætlanir erum við búin að vera að ræða í þinginu á síðustu árum og engin þeirra hefur farið í umhverfismat áætlana. Maður spyr sig því: Er þetta ekki svolítið röng forgangsröðun? Af hverju hefur verið beðið svona lengi með að koma með þetta frumvarp á sama tíma og við vissum að við værum að setja í gegnum þingið hverja stóráætlunina á fætur annarri sem ekki hafa lotið þessum lögum? Ég segi því, þó að ég fagni því að frumvarpið sé komið fram, að stærstu áætlanirnar okkar hafi farið í gegn án þess að hafa þurft að lúta því ferli sem hér er fyrirskrifað. Hér hefðum við mátt vera kannski örlítið meðvitaðri og standa betur að verki. Það má alltaf segja ef og hefði, og við skulum ekki dvelja lengi við það hér.

Eitt atriði vil ég nefna vegna þess að í markmiðsgrein frumvarpsins er þess getið að markmiðið sé „að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum“ með þessu umhverfismati. Þarna er hugtakið sjálfbær þróun beinlínis sett í markmiðsgrein frumvarpsins. Ég minnist þess ekki að hafa séð hugtakið sjálfbær þróun í markmiðsgrein annarra laga þannig að ég fagna því að hér sé markmiðið beinlínis að stuðla að sjálfbærri þróun. Af því að við erum nýkomin af umhverfisþingi erum við kannski heit í þessari umræðu um sjálfbæru þróunina og vil ég í því sambandi nefna áhyggjur mínar af skilgreiningu þessa hugtaks. Það er alveg ljóst að þegar slíkt hugtak er sett inn í markmiðssetningu laga þarf að vera alveg á hreinu við hvað er átt. Ef hæstv. umhverfisráðherra ætlar að miða hér við útskýringu umhverfisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar á sjálfbærri þróun eins og hún kemur fram í bæklingnum „Velferð til framtíðar“, stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun, þá mótmæli ég því. Ég er fullkomlega ósátt við skilgreininguna sem ríkisstjórnin setur fram á hugtakinu sjálfbær þróun í þeirri stefnu og tel hana ranga. Ég tel hana stangast á jafnvel við grundvallarmarkmiðin með sjálfbærri þróun.

Í ritinu Velferð til framtíðar segir um sjálfbæra þróun, með leyfi forseta:

„Flestir eru sammála um mikilvægi sjálfbærrar þróunar en þó er ekki öllum ljóst hvað raunverulega felst í þessu hugtaki. Hugtakið varð fyrst áberandi í alþjóðlegri umræðu á níunda áratug síðustu aldar en festist síðan endanlega í sessi á ráðstefnu þjóðarleiðtoga um umhverfi og þróun sem haldin var í Rio de Janeiro árið 1992. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Í fyrstu grunnreglu Ríó-yfirlýsingarinnar segir: „Sjálfbær þróun snýst um manninn og möguleika hans. Fólk á að geta starfað og lifað heilbrigðu lífi í sátt við náttúruna.“

Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum.“

Frú forseti. Ég er sammála því sem hér segir, að sjálfbær þróun sé þróun sem mæti þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í framhaldi af þessu segir í kaflanum „Hvað er sjálfbær þróun?“, í riti ríkisstjórnarinnar Velferð til framtíðar, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Sjálfbær þróun hefur þrjár meginstoðir: efnahagsþróun, félagslega velferð og jöfnuð og loks vernd umhverfisins. Skoða þarf þessa þrjá þætti í samhengi og leitast við að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða umhverfið.“

Þarna skilur leiðir, frú forseti. Ég er ekki sátt við það og ekki sammála því að sjálfbær þróun hafi með hámörkun efnahagslegrar velferðar að gera eða að hún fjalli í grundvallaratriðum um efnahagsvöxt. Þar tel ég ríkisstjórnina vera á villigötum. Í mínum huga á sjálfbær þróun eingöngu við um það að við uppfyllum kröfur okkar um lífsgæði á sama tíma og við gætum þess að umhverfið og náttúrulegar auðlindir skaðist ekki og skerðist ekki þannig að komandi kynslóðir eigi sömu möguleika á að uppfylla þarfir sínar eins og við eigum til að uppfylla okkar. Þegar við lifum í veröld þar sem neyslustuðullinn í hinum vestræna heimi er kominn upp í 1,2 og jafnvel 1,3 eða 1,4 í sumum tilfellum, er alveg ljóst að við erum að ganga á náttúrulegar auðlindir og umhverfi umfram það að við getum tryggt komandi kynslóðum sömu gæði og við krefjumst í dag.

Við sem lifum langt um efni fram og af þeirri græðgi sem við lifum ástundum ekki sjálfbæra þróun. Við lifum ekki eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Ríkisstjórnin leggur ekki sitt af mörkum til að við getum keyrt eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar á meðan hún skilgreinir sjálfbæra þróun á þeim nótum sem hún gerir í ritinu Velferð til framtíðar. Þess vegna er það grundvallaratriði þegar við setjum hugtakið inn í markmiðssetningu laga að við vitum um hvað við erum að tala og að við skiljum öll hugtakið á sama hátt. Ég tel að sú umræða sem á eftir að fara fram í umhverfisnefnd og áframhaldandi í tengslum við þetta frumvarp komi til með að verða um skilgreininguna á þessu hugtaki, á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Það er algerlega nauðsynlegt að við tökum þá umræðu. Við þurfum að taka hana af mikilli alvöru því að í skilningi okkar og skilgreiningu á því hugtaki liggur grundvöllurinn til þess að fara að lögum eins og þeim sem hér er mælt fyrir.

Frú forseti. Ég geri mér grein fyrir að margt býr í þessu frumvarpi og við eigum eftir að fá sjónarmið stofnananna sem koma til með að þurfa að starfa eftir þessum lögum ef frumvarpið verður að lögum, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og fleiri stofnanir sem koma til með að koma að þessum málum. Við eigum eftir að skoða nánar 7. gr. um það á hvern hátt almenningi skuli kynntar tillögur að áætlunum sem undir þessi lög koma til með að heyra. Mér sýnist í fljótu bragði að einhverju sé ábótavant í þeim efnum en sökum þess að ég hef ekki haft tíma til að fara djúpt ofan í það ætla ég ekki að orða þær athugasemdir mínar hér. Ég tel að umhverfisnefnd hafi hér verðugt verkefni að vinna og vildi óska að við hefðum fengið það á borð okkar fyrir tveimur, þremur, fjórum árum. Svo var ekki þannig að við brettum bara upp ermar og tökum því sem að höndum ber. Ég treysti því að umhverfisnefnd fari vel ofan í málið og vinni það af vandvirkni.