Umhverfismat áætlana

Mánudaginn 21. nóvember 2005, kl. 17:36:38 (1975)


132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Umhverfismat áætlana.

342. mál
[17:36]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara örfá orð um sjálfbæra þróun. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að hún lítur svo á að það sé ákveðin takmörkun á þeirri hámörkun efnahagslegrar velferðar sem um getur í skilgreiningu ríkisstjórnarinnar og ég get í sjálfu sér alveg fallist á það. En það kemur hins vegar ekki fram í þeim texta sem við höfum til að miða við. Við skulum því hnykkja á því. Og af því að við vorum að koma af umhverfisþingi þar sem talað var um hið vistfræðilega fótspor manneskjunnar á jörðinni, þá er ljóst að við erum að gera fótspor okkar dýpra en svo að það sé fyrirséð að komandi kynslóðir geti lifað á svipuðum nótum og við erum að gera af náttúrulegum auðlindum jarðarinnar. Það verður því að draga úr neyslunni á Vesturlöndum til þess að fótspor okkar, hið vistfræðilega fótspor verði ekki of djúpt til að við vitum það fyrir fram að við séum að eyðileggja möguleika komandi kynslóða. Það að tala um vöxt og hámörkun í útskýringu á hugtakinu sjálfbær þróun er í mínum huga öfugmæli og við þurfum að jafna það á einhvern hátt út.

Hins vegar gleymdi ég öðru atriði sem hæstv. umhverfisráðherra mætti kannski eyða orðum á ef hún kemur í andsvar við mig, það er varðandi aukinn kostnað sveitarfélaganna af umræddu frumvarpi. Nú erum við með umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem fram kemur að við gerð kostnaðarmatsins liggi ekki fyrir upplýsingar um umfang og gæði þeirrar áætlunar sem muni koma til mats. Þar er ákveðin niðurstaða varðandi kostnaðarmatið þar sem talað er um útgjöld ríkisins, útgjöld Skipulagsstofnunar en ekki er getið neitt um aukinn kostnað sveitarfélaganna, sem ég get nú ímyndað mér að verði talsverður því að ég hugsa að hér geti skipulagsáætlanir þeirra jafnvel fallið undir. Nokkur orð um það væru því vel þegin.