Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 21. nóvember 2005, kl. 17:42:23 (1978)


132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

326. mál
[17:42]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tvö atriði, annars vegar hækkun á sjómannaafslætti og í sjálfu sér á meðan við höldum þeim skatti, sem í raun er ekki skattur heldur afsláttur í krónum talið, þá er eðlilegt að hækka hann miðað við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins eins og við höfum gert á hverju ári varðandi ýmiss konar gjöld sem menn þurfa að borga til ríkisins. Ég geri ráð fyrir að stjórnarandstaðan muni mótmæla þessu nákvæmlega eins og hún mótmælti á sínum tíma sambærilegri hækkun á alls konar gjöldum til ríkisins. Hins vegar vil ég lýsa því yfir, frú forseti, að ég er á móti sjómannaafslættinum sem slíkum og hef mörgum sinnum lagt til að hann verði felldur niður. En á meðan við höldum honum finnst mér þetta rökrétt.

Í öðru lagi er lagt til að viðmiðun skattskyldu verði miðuð við 31. desember og ég vil að hv. nefnd, sem ég reyndar stýri, fari vel ofan í það af hverju ekki ætti að miða við 1. janúar ár hvert þar sem það er fyrsti dagurinn í því skatttímabili sem um er að ræða. Ég held að meiri rök séu fyrir því en að hafa það síðasta dag ársins áður. En það gerist svo sem ekki mikið á milli 31. desember og 1. janúar alla jafna.