Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 21. nóvember 2005, kl. 17:44:18 (1979)


132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[17:44]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu er með því kveðið á um nokkrar breytingar á lögum um olíugjald og kílómetragjald með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin er á framkvæmd laganna frá gildistöku þeirra 1. júlí 2005.

Í fyrsta lagi er lögð til ný skilgreining á ökutækjum til sérstakra nota sem undanþegin eru olíugjaldi skv. 4. gr. núgildandi laga. Ökutæki til sérstakra nota eru í núgildandi lögum skilgreind út frá tilvísun í tiltekinn vörulið í viðauka I við tollalög. Hefur sú skilgreining skapað vanda í framkvæmd og reynst vera ómarkviss. Heiti ökutækjanna í vöruliðnum á sér sjaldan samsvörun í skráningu í ökutækjaskrá sem gerir það að verkum að afar erfitt er að tilgreina nákvæmlega hvaða ökutæki falla undir þessa undanþágu. Við endurskoðun á skilgreiningu ökutækja til sérstakra nota er með frumvarpi þessu haft að leiðarljósi að um sé að ræða ökutæki sem að meginhluta til brenni dísilolíu í kyrrstöðu eða við vinnslu og er með varanlegum, áföstum búnaði til sérstakra nota. Verði frumvarpið að lögum verða ökutæki sem falla undir sérstök not tilgreind nánar í reglugerð.

Í frumvarpinu er lagt til að eigendum ökutækja til sérstakra nota verði heimilt að velja hvort þeir greiði olíugjald og kílómetragjald samkvæmt núgildandi lögum vegna umræddra ökutækja eða hvort þeir verði undanþegnir olíugjaldi og greiði samhliða því sérstakt kílómetragjald. Tilgangur frumvarpsins er því að þessu leyti að ná betur utan um ökutæki sem eiga hvorki að fullu heima í eða utan þess olíugjaldskerfis sem tekið var upp 1. júlí 2005.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að samhliða áðurnefndri endurskilgreiningu verði sett sérstök gjaldskrá kílómetragjalds fyrir ökutæki til sérstakra nota sem verða undanþegin olíugjaldi. Samkvæmt núgildandi lögum greiða ökutæki til sérstakra nota sama kílómetragjald og önnur ökutæki, þyngri en 10 tonn, sem einnig greiða olíugjald. Er það kílómetragjald töluvert lægra en í hinu eldra þungaskattskerfi sem aflagt var 1. júlí 2005, enda var það hugsað sem viðbót við olíugjald hjá þyngri ökutækjum, óháð eldsneytisgjafa, sem slíta vegakerfinu hlutfallslega meira en önnur ökutæki. Með hliðsjón af jafnræði í skattlagningu og meginreglunni um að notendur vegakerfisins greiði til uppbyggingar og viðhalds á vegakerfinu í hlutfalli við það slit sem viðkomandi ökutæki veldur er því lagt til með frumvarpi þessu að umrædd ökutæki til sérstakra nota sem kjósa að vera undanþegin olíugjaldi greiði sérstakt kílómetragjald vegna nota þeirra á vegakerfi landsins. Hið sérstaka kílómetragjald er í raun ígildi olíugjalds þar sem leitast er við að jafnræði ríki í gjaldtöku milli ökutækja til sérstakra nota sem aka á gjaldfrjálsri olíu og annarra ökutækja svipaðrar gerðar miðað við sambærilegan akstur og not á almenna vegakerfinu.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að sett verði í lögin skýr heimild fyrir námuökutæki og beltabifreiðar til að nota gjaldfrjálsa olíu en slík heimild er í dag í 2. gr. reglugerðar nr. 602/2005, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds. Er ákvæðið í samræmi við sams konar ákvæði og var í hinu eldra þungaskattskerfi og er afmarkað við belta- og námubifreiðar sem eingöngu eru notaðar utan vega eða á lokuðum vinnusvæðum.

Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að dráttarvélar verði undanþegnar olíugjaldi, óháð því hvort þær eru ætlaðar til nota í landbúnaði eða ekki. Dráttarvélar hafa þá sérstöðu umfram aðrar vinnuvélar að vera skráðar bæði í ökutækjaskrá og vinnuvélaskrá. Samkvæmt núgildandi lögum eru allar vinnuvélar undanþegnar olíugjaldi og er því lagt til að skilyrðið um notkun „í landbúnaði“ í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. verði afnumið, og þar með eigi allar dráttarvélar, óháð notkun, rétt á gjaldfrjálsri olíu.

Að auki er með frumvarpinu kveðið á um minni háttar tæknilegar breytingar á núgildandi lögum um olíugjald og kílómetragjald.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.