Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 21. nóvember 2005, kl. 18:15:13 (1982)


132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er einkum tvennt sem ég vil ræða hér. Fyrri liðurinn varðar flutningskostnaðinn og þau gjöld sem honum fylgja og virðisaukaskatturinn bætist svo við, en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem var að ljúka máli sínu talaði einnig um þetta.

Ég hélt satt að segja að til að lagfæra þá stöðu sem kemur upp varðandi flutningskostnað á þau svæði landsins sem lengst er að keyra til, þ.e. á Norðaustur-, Norðvestur- og Austurland, ætluðu menn sér að fara þá leið að búa til endurgreiðslufyrirkomulag varðandi flutningana og að reynt yrði að leysa þetta mál á þann hátt. Þannig hafði ég skilið það þegar við vorum að fjalla um þetta síðast. En það virðist ekki vera svo. Ég segi því eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að ég vil fá skýringar á því hvers vegna það er ekki talin fær leið að menn sýni einfaldlega fram á starfsemi sína og akstursvegalengdir og eigi síðan rétt á endurgreiðslu og í samræmi við það verði einnig hægt að meta það til lækkunar á flutningi á þeim leiðum þar sem kostnaðurinn er hæstur. Þetta mundi síðan vonandi endurspeglast í vöruverði hjá þeim neytendum sem búa á þessum svæðum, því þeir kaupa þá vöru sem flutt er og greiða flutningskostnaðinn, ásamt skattinum til ríkisins í gegnum vaskinn.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að víkja að, hæstv. forseti, varðar ökutæki sem eru með varanlega áföstum búnaði til sérstakra nota. Til dæmis ökutæki sem notuð eru við snjómokstur og eru með sérstakri tönn. Hún er venjulega tekin af á vorin og menn nota þá bifreiðarnar til einhvers annars. Ég ætlaði aðallega að fá skýringar frá hæstv. fjármálaráðherra varðandi þá útfærslu. Ég geri síðan ráð fyrir því að þetta mál komi ekki bara inn í efnahags- og viðskiptanefnd heldur einnig til samgöngunefndar og menn fái tækifæri til að fara gaumgæfilega í gegnum það vegna þess að það skiptir verulegu máli varðandi samgöngur hér á landi. Ég held að menn þurfi að vanda sig við þetta verk núna þannig að það finnist í þessu einhver vitræn niðurstaða, eins og stundum er sagt, og menn sitji ekki uppi með eitt klúðrið enn þá.