Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 21. nóvember 2005, kl. 18:18:24 (1983)


132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að reyna að svara spurningum hv. þingmanna en ég held hins vegar að það sé rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að í þessum efnum höfum við ekki höndlað sannleikann, alla vega ekki enn ef hægt er að tala um það að menn höndli sannleikann einhvern tíma yfirleitt.

Hv. þm. Kristján Möller spyr um dráttarvélar gagnvart vörubílum en eins og fram kemur í greinargerð og í máli mínu þá er um það að ræða að dráttarvélar verði raunverulega skilgreindar sem vinnuvélar og falli þar með undir undanþáguna. Þó að auðvitað sé eitthvað líkt með því sem slíkar vinnuvélar geta unnið á vörubílum þá held ég að það sé talsverður munur á þeim farartækjum. Ég á ekki sérstaklega von á því að það muni valda erfiðleikum í þessu en auðvitað veit maður aldrei fyrir fram hvað mönnum dettur í hug í þessum efnum frekar en öðrum.

Í öðru lagi spyr hann um námuökutækin. Ég held að sú breyting sem hér er lögð til muni frekar auðvelda þær skilgreiningar og koma á því réttlæti sem hægt er í því sambandi.

Það er auðvitað rétt hjá honum að það er hætta á því að menn svindli í þessu og svíkist undan. Við þekkjum það því miður og það getur auðvitað alveg eins verið í kringum slökkvibíla, svo mikilvægir sem þeir eru, eins og annað en ég held að við munum aldrei komast algerlega frá því.

Hann spurði sérstaklega um holræsabifreiðarnar. Þær eru klárlega nefndar í greininni sem fjalla um undanþágurnar, þ.e. þau tæki sem eru með varanlega föstum búnaði þannig að ég held að það svari spurningunni í þeim efnum. Ég hef ekki neinar tölur um innheimtustöðuna og tel reyndar að það sé varla tímabært að fara út í einhverja samanburðarfræði hvað varðar, ég tel að það sé rétt hjá hv. þingmanni þó það sé kannski ekki endilega á þeim forsendum að það sé svo mikið magn í kútum og tönkum víða um land að það geri útslagið. Að sama skapi tel ég að sú skýrsla sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að kalla eftir, þ.e. skýrsla eða úttekt á stöðunni, að vart sé tímabært að taka saman slíka skýrslu, við þurfum frekari tíma til að átta okkur á hver áhrifin verða.

Ég hef ekki sérstakar upplýsingar um hvernig staðan er hjá vörubílum sem eru yfir 10 tonn og eru í sérhæfðum verkefnum eins og snjóruðningi en það er sjálfsagt að reyna að leita eftir þeim upplýsingum og koma þeim á framfæri við hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar hún fjallar um frumvarpið.

Síðan hvað flutningskostnaðinn varðar og jöfnun hans þá hef ég engu að bæta við það sem fram hefur komið hjá hæstv. iðnaðarráðherra, það eru engar nýjar fréttir um hvað er að gerast í þeim efnum. Ég er hins vegar ekki alveg tilbúinn til þess, án þess að hafa skoðað það sérstaklega, að skrifa upp á þær tölur sem hv. þingmaður var með um hvaða áhrif þetta hefði á vöruverðið, án þess að ég sé endilega að segja að hann hafi rangt fyrir sér. En áður en ég hef farið yfir þetta sjálfur eða látið gera það þá vil ég ekki skrifa upp á þetta hér og nú.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi einnig jöfnun flutningskostnaðar og á sömu forsendum og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég átta mig hins vegar ekki alveg á hvað hann vildi að ég útskýrði frekar varðandi þessi tæki sem eru með varanlega föstum búnaði, eftir hverju hann var sérstaklega að leita umfram það sem ég var áður búinn að nefna. En það er verið að leitast við að ívilna þeim sem eru með tæki af þessum toga þannig að jafnvel þótt þeir noti dísilolíu þá greiði þeir ekki gjald nema þá vegna þess sem fer í eyðslu við akstur á vegum og þá hvernig er farið með vegina. Það er verið að reyna að nálgast þetta út frá sanngirnissjónarmiði og auðvitað er það ekki alltaf auðvelt eða einfalt og ekkert sjálfsagðara en að hv. nefnd fari yfir það í þessu ljósi. En einhvers staðar verður að draga mörkin og það er hlutverk okkar í þessu eins og svo mörgu öðru að gera það.

Hins vegar varðandi hið nýja kerfi í heild þá held ég að það hafi marga mjög góða kosti. Ég veit ekki hvort menn hafa endilega lagt upp með að það yrði í öllum efnum einfalt en alla vega hvað um þann stóra fjölda sem dags daglega keyrir um á dísilbifreiðum þá held ég að kerfið sé einfaldara og að því leytinu sé breytingin jákvæð. Það heyrir maður hjá fjölda manns.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, við höfum ekki höndlað sannleikann í þessu enn sem komið er og gerum það kannski aldrei en þetta frumvarp og reyndar annað sem er á leið inn í þingið er tilraun til að gera þetta kerfi eins skaplegt og frekast er unnt og ég vonast til þess að jafnvel þó að menn séu ekki sammála þá virði þeir viðleitnina til þess.