Ábyrgðasjóður launa

Föstudaginn 25. nóvember 2005, kl. 12:17:38 (2376)


132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta litla frumvarp sem varðar málefni Ábyrgðasjóðs launa tekur á atriðum sem að sjálfsögðu er óumflýjanlegt að bregðast við og þá sérstaklega því sem snýr að fjárhag sjóðsins og því að hann á ekki fyrir skuldbindingum sínum eða verkefnum. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka á því vegna þess að starfsemi sjóðsins er bráðnauðsynleg og enginn vill, held ég, sjá að horfið verði aftur til þeirra tíma að launamenn geti misst í stórum stíl af launum sínum vegna þess að vinnuveitandi þeirra fari á höfuðið eða komist í þrot og þeir eigi inni stórar fjárhæðir í ógreiddum launum, varnarlausir með öllu oft og tíðum gegn því ástandi sem þar hefur skapast, hafandi ekki haft upplýsingar um stöðu fyrirtækisins o.s.frv.

En það vekur óneitanlega athygli að hér er lögð til meira en tvöföldun á gjaldtökunni, þ.e. úr 0,04% af gjaldstofninum, sem er greidd laun í landinu og í 0,1%. Þetta er sem sagt umtalsverð hækkun, meira en tvöföldun þó svo að prósentan sé ekki há. Það hlýtur að stafa af öðru tvennu nema hvoru tveggja sé í bland að gjaldþrot hafi orðið mun meiri en menn reiknuðu með þegar prósentan var stillt af á sínum tíma og talið var nægja að 0,04% væru tekin eða hinu að menn hafi vanmetið málin verulega. Mér fyndist því mega koma aðeins skýringar fram á því hverjar séu meginástæður þess að svona mikla breytingu þarf á gjaldtökunni.

Nú er það gott ef samkomulag er um það við atvinnurekendur sem greiða gjaldið að fara í þessa hækkun enda óumflýjanlegt og þá á það ekki að þurfa að valda deilum. Engu að síður er fróðlegt að vita hvað hér hefur gerst.