Ábyrgðasjóður launa

Föstudaginn 25. nóvember 2005, kl. 12:22:39 (2380)


132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:22]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til þess að fá það upplýst nú við 1. umr. hvort farið hafi fram sérstök úttekt á því hvernig þessi staða kemur upp í einstökum tilvikum. Þá á ég við það hvort farið hafi fram skoðun á aðdraganda gjaldþrota fyrirtækja og hvort menn hafi skoðað það sérstaklega hvort að í rekstri fyrirtækja sem enda í gjaldþroti séu menn í raun að stefna til þess að launþegar taki laun sín í gegnum Ábyrgðasjóð, þ.e. hvort þeir haldi of lengi áfram rekstri, þó að í verulegum taprekstri sé, og treysti á að koma launum fólksins yfir á Ábyrgðasjóð launa.

Ég held að nauðsynlegt sé að skoða það, hafi það ekki verið gert, því að það er ekki hugsunin við Ábyrgðasjóð launa að menn geti beinlínis gert út á það í rekstri sínum að lokauppgjör launþega færist sjálfkrafa yfir á sjóðinn. Þess vegna spyr ég að því hvort það hafi verið skoðað varðandi þetta ferli fyrirtækjanna, þ.e. hvort eðlilega sé staðið að málum miðað við þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja í rekstri og þeirrar ábyrgðar sem menn eiga að bera þar.