Ábyrgðasjóður launa

Föstudaginn 25. nóvember 2005, kl. 12:29:52 (2386)


132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að launagreiðandi sér um að innheimta gjaldið. En þetta eykur launakostnaðinn og minnkar það svigrúm sem hægt er að nota til þess að greiða laun. Á endanum kemur þetta því niður á launafólki. Það er alveg gefið. Þetta leggst hlutfallslega jafnt á há og lág laun. Þess vegna kemur persónuafslátturinn ekkert inn í. Meðan bæði er verið að draga saman persónuafsláttinn og hækka tryggingagjaldið, sem má alveg líta á sem flatan skatt á öll laun, þá er verið að þyngja skattbyrði þeirra sem hafa lægri tekjurnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að ég hef nú staðið í þeim sporum að greiða laun og það er ansi flókið, hvort ekki sé tímabært að huga að því að koma á miðlægu innheimtukerfi. Það mundi koma sér sérstaklega vel fyrir minni fyrirtæki og mundi eflaust líka tryggja að lífeyrissjóðsgreiðslur (Forseti hringir.) mundu skila sér. Það mundi svo leiða til þess mögulega að minna streymdi út í þessar ábyrgðatryggingar.