Ábyrgðasjóður launa

Föstudaginn 25. nóvember 2005, kl. 12:40:53 (2389)


132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:40]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er tekið til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa og til þess gripið að hækka framlög í sjóðinn með tilliti til slæmrar stöðu hans, hækka ábyrgðargjaldið um hátt í 150% frá því sem nú er en það á að gefa sjóðnum 600 millj. kr. og ríflega það. Ég vil minna á í þessu sambandi að við höfum ítrekað, bæði núna við fjárlagagerðina og síðustu fjárlagagerð, vakið athygli þingheims á stöðu Ábyrgðasjóðs launa og talið að um verulegar vanáætlanir væri að ræða í sjóðinn miðað við skuldbindingar hans og vöruðum við hvert stefndi.

Við höfum bent á að tvöfalda þyrfti ábyrgðargjaldið, gerðum það á síðasta þingi, til að sjóðurinn gæti staðið undir skuldbindingum sínum og gert upp við ríkissjóð en hann skuldaði þá um 600 millj. kr. Þetta hefur ítrekað komið fram og kemur fram í gögnum núna við fjárlagagerðina þannig að þetta frumvarp kemur ekki á óvart og full ástæða er til að taka á málunum með þeim hætti sem hæstv. félagsmálaráðherra gerir.

Það vekur athygli að þrátt fyrir að verið sé að hækka gjaldið um fast að 150% þá er engu að síður áætlað að halli sjóðsins verði um 1,1 milljarður í árslok 2006 og tæpir 2,2 milljarðar í árslok 2011 að öllu óbreyttu — þrátt fyrir þessa hækkun sem hér er verið að gera. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ekki var þá tekið fastar á fyrst þetta gerir ekki meira en raun ber vitni og enn verður áfram viðvarandi halli á sjóðnum á næstu árum? Í tengslum við fjárlagagerðina sá ég, og ég býst við að sé viðurkennt í þessu frumvarpi hæstv. ráðherra, að á árinu 2011 verði halli í árslok þrátt fyrir þessa gjaldtöku.

Að vísu ætla ég að leiðrétta mig hér vegna þess að þegar ég nefndi 2,2 milljarða í árslok 2011 var það að óbreyttu gjaldi en engu að síður er gert ráð fyrir verulegum halla á rekstri sjóðsins þrátt fyrir þá breytingu sem hér er verið að gera.

Aðeins var komið inn á það hér hvort hæstv. ráðherra teldi að grípa þyrfti til einhverra frekari aðgerða en gert hefur verið varðandi t.d. atvinnurekendur — atvinnurekendur sem ítrekað verða gjaldþrota og skuldbindingar þeirra lenda á Ábyrgðasjóði launa. Ég minnist þess að þegar við ræddum málið fyrir nokkru hafði verið gerð úttekt á stöðu sjóðsins og þá komu fram ýmsar aðgerðir sem þeir sem unnu verkið fyrir hæstv. ráðherra töldu að grípa þyrfti til til að sporna við hinu mikla útstreymi úr ábyrgðarsjóði launa. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort öllum þeim tillögum sem þar komu fram hafi verið hrint í framkvæmd. Ef ekki, hvað stendur út af? Við erum að fjalla um mjög mikilvægan sjóð sem hefur mikla þýðingu fyrir launafólk. Það er mjög mikilvægt að vel sé að honum staðið í fjármögnun og lögum og reglum. Það er ekki svo sjaldan sem fólk hefur þurft að sækja rétt sinn í þennan sjóð, ekki síst þegar þeir sem lenda með fyrirtæki sín í gjaldþrot fara og skilja eftir ógreidda vörsluskatta lífeyrisréttinda og annað.

Ég vildi spyrja ráðherrann í fyrsta lagi hvort hann teldi ekki að gera þyrfti betur en hér er gert til þess að ná fyrr jafnvægi í stöðu sjóðsins, hvort gerðar hafi verið einhverjar áætlanir um útgjöld í sjóðnum á næstu árum sem við sem um málið fjöllum í hv. félagsmálanefnd gætum fengið.

Ég vil líka vekja athygli ráðherrans á því svari sem ég fékk frá viðskiptaráðherra fyrir sennilega tveimur árum. Í því svari upplýsti ráðherra mig um ýmislegt sem ég hafði hug á að vita varðandi kennitöluflakk í atvinnurekstri. Spurt var hvort ráðherra teldi ástæðu til að grípa til aðgerða eða lagasetningar til að sporna við kennitöluflakki og hvort Norðurlandaþjóðirnar hefðu gripið til sérstakra aðgerða eða lagasetningar til að koma í veg fyrir slíkt. Ég sá ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra þeirrar spurningar þá í ljósi upplýsinga sem ég hafði áður fengið í svari til mín þar sem fram kom að á árunum 1992–2001 urðu rúmlega 3.000 hlutafélög og einkahlutafélög gjaldþrota og 331 einstaklingur sem sat í stjórn þessara félaga hafði setið í stjórnum þriggja eða fleiri félaga. Af þessum 331 einstaklingi sátu 228 í stjórnum þriggja þessara gjaldþrota félaga, 58 sátu í stjórnum fjögurra þeirra og 45 í stjórnum fimm eða fleiri þeirra félaga sem orðið höfðu gjaldþrota.

Þar kom líka fram að fjöldi gjaldþrota hlutafélaga og einkahlutafélaga þar sem stjórnarmenn þeirra tengdust þremur eða fleiri gjaldþrotum eru rúmlega 800 af þeim rúmlega 3.000 sem urðu gjaldþrota á árunum 1992–2001. Maður veltir því fyrir sér hvort einhver tengsl séu milli gífurlegrar aukningar á útstreymi úr Ábyrgðasjóði launa og fjölda einstaklinga sem aftur og aftur stofna til fyrirtækjareksturs eftir gjaldþrot og senda reikninginn fyrir ógreidd laun og vörsluskatta í ríkissjóð.

Þegar við ræddum hér fyrir ekki margt löngu um stöðu þessa sjóðs upplýsti ráðherra að útgjöld úr sjóðnum hafi, að mig minnir, fjórfaldast á stuttum tíma og maður veltir því þá fyrir sér hve mikil tengsl séu þarna á milli. Við höfum t.d. fjallað um þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd og m.a. velt því fyrir okkur hvort ástæða sé til að skoða kennitöluflakkið svokallaða og ég minnist þess að Samtök iðnaðarins hafa margoft bent á þetta.

Þess vegna held ég að gott væri að fá svar við því við þessa umræðu, af því erum að fjalla um Ábyrgðasjóðinn, hvort ráðherrann telji ástæðu til að skoða frekar en gert hefur verið hvort veruleg og þá hver tengsl séu milli gífurlegrar aukningar útgjalda hjá Ábyrgðasjóði launa og fjölda einstaklinga sem aftur og aftur stofna til fyrirtækjareksturs á grunni gjaldþrots sem þeir lenda kannski aftur og aftur í. Maður hefði haldið að þetta ætti að vera sameiginlegt verkefni bæði fyrir viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra að fara í. Ég spyr hæstv. ráðherra um það.

Ég vil benda á, þótt ég sé ekki sérstaklega að leggja það til, að aðrar þjóðir hafa gengið miklu lengra en við í því að grípa til aðgerða þegar um er að ræða kennitöluflakk í þeirri mynd að verið er að stofna aftur og aftur til fyrirtækja á grunni þess gamla og vísa réttarmálum og iðgjöldum launþega í ábyrgðasjóði. Í svari ráðherra til mín sem ég vitnaði í áðan kom fram að í frumvarpi um atvinnurekstrarbann sem var til skoðunar, og flutt var af Finni Ingólfssyni sem þá var þingmaður, var lögð til sú leið að leggja tímabundið bann við atvinnurekstri einstaklinga. Byggðist það á sænskum lögum og jafnvel á annarri norrænni löggjöf sem tengdist refsiverðu atferli. Í Finnlandi eru ekki ósvipuð lög um atvinnurekstur og sumir hafa farið þá leið að setja tímabundið bann við setu aðila í stjórnum fyrirtækja sem lent hafa aftur og aftur í gjaldþrotum.

Þetta eru mál sem menn hafa reifað annað slagið hér á landi en aldrei hefur orðið neitt úr því að fara þessa leið og aðrar Norðurlandaþjóðir virðast taka harðar á þessum málum en við gerum. Mér fannst ástæða til þess, virðulegi forseti, að hreyfa þessari hlið á málinu aftur þegar við fjöllum um Ábyrgðasjóð launa. Við höfum fyrirliggjandi upplýsingar og athuganir sem gerðar hafa verið og ég vitna hér í sem gefa fullt tilefni til þess að fastar sé tekið á þessu af hálfu ráðherranna. Ég heyrði að hæstv. félagsmálaráðherra nefndi áðan að komið hefði fram í þeirri úttekt sem hann lét gera á stöðu sjóðsins að þarna væru einhver tengsl á milli.

Þá er spurningin: Hvað verður gert í framhaldi af því? Er bara látið þar við sitja að þarna sé sterk vísbending, sem kom fram í úttekt nefndar sem skoðaði málið á vegum ráðherra, og síðan verði ekkert gert með málið í framhaldinu? Þetta er ein leið til þess að vernda þennan sjóð sem er svo mikilvægur fyrir launafólk og til að koma í veg fyrir, virðulegi forseti, að verið sé að misnota hann. Þetta er mál sem ég tel að við ættum að kafa miklu dýpra í hér á landi en gert hefur verið án þess að ég sé að tala fyrir því að ráðist verði með einhverju offorsi eða hörku í það. Engu að síður er full ástæða til að skoða málið. Ég geri mér fyllilega ljóst að á því eru margar hliðar en það er engin ástæða til þess, virðulegi forseti, að láta kyrrt liggja í þessu efni. Þetta er mál sem þarf að kafa betur ofan í.

Að öðru leyti mun ég að sjálfsögðu greiða fyrir því að frumvarp þetta nái fram að ganga fyrir jólaleyfi. Ég geri mér grein fyrir að það er hluti af fjárlagagerðinni og mun fyrir mitt leyti reyna að stuðla að hraðri afgreiðslu málsins.