Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 16:01:58 (2483)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

328. mál
[16:01]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fullyrða mikið um þennan þátt. Þetta er að sjálfsögðu atriði sem hlýtur að koma til skoðunar. Ef menn eru að gera rannsókn að þessu leyti og komast síðan að því að grunur sé um einhverja aðra refsiverða háttsemi, þá eru þessi lög ekki þannig úr garði gerð að þau heimili mönnum sérstakar aðgerðir í því skyni, heldur hlýtur það að fara eftir þeirri kæruleið sem menn hafa þegar leita þarf til lögreglu vegna þeirra brota sem menn telja sig hafa grunsemdir um.

Ég túlka það sem við erum að fjalla um því þröngt, enda er þetta eins og lögin heita: Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Menn verða að túlka lögin í samræmi við það sem segir í lögunum og í 1. gr. segir: „Samkvæmt því sem mælt er fyrir um í lögum þessum verður sönnunargagna aflað vegna ætlaðra brota gegn eftirfarandi hugverkaréttindum.“ Verið er að skilgreina þarna sérstakan andlagsflokk. Það gildir náttúrlega það sama í þessu efni og jafnan þegar menn eru að kanna eitthvað. Ef þeir sjá eitthvað sem þeir telja refsivert samkvæmt öðrum lögum er eðlilegt að gera viðvart um það. En þeir hafa í sjálfu sér engar sjálfstæðar heimildir til að ganga lengra í því efni en þessi lög heimila.