Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 17:17:30 (2494)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

363. mál
[17:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald og fleira, með síðari breytingum. Með frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin lækkun á fjárhæð olíugjalds úr 45 kr. í 41 kr. verði framlengd um hálft ár, eða til 1. júlí 2006. Með lögum nr. 70/2005, um breytingu á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald og fleira, var lögfest tímabundin lækkun frá 1. júlí 2005 til 31. desember 2005 á fjárhæð olíugjalds um 4 kr. eða úr 45 kr. í 41 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu.

Markmiðið með hinni tímabundnu lækkun, sem gilda átti frá 1. júlí til 31. desember 2005, var að bregðast við óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu, samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni. Verð á dísilolíu á heimsmarkaði er enn þá óvenjuhátt í samanburði við heimsmarkaðsverð á bensíni sé til viðmiðunar litið til nokkurra ára aftur í tímann. Eiga sömu forsendur nú við og fram komu þegar lög nr. 70/2005, um tímabundna lækkun olíugjalds, voru samþykkt. Óvissa er um hvernig heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu muni þróast innbyrðis á næstu mánuðum. Með vísan til þessa ástands er með frumvarpi þessu lagt til að hin tímabundna lækkun olíugjalds verði framlengd um hálft ár eða til 1. júlí 2006. Fram að þeim tíma gefst færi á að yfirfara betur innbyrðis samræmi milli olíugjalds, bensíngjalds og kílómetragjalds.

Þess ber að geta að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 kemur fram að í tengslum við lögfestingu tímabundinnar lækkunar olíugjalds, sbr. lög nr. 70/2005, kynni bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald að verða stillt frekar af innbyrðis áður en gildistími tímabundinnar lækkunar olíugjalds rennur út um næstu áramót þó þannig að miðað verði við að tekjur ríkissjóðs héldust þær sömu.

Verði frumvarpið að lögum er áætlað að það muni leiða af sér um 160 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð á árinu 2006 frá því sem miðað var við í forsendum fjárlaga 2006.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.