Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 17:32:24 (2496)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

363. mál
[17:32]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef nú ekki séð neina útreikninga í þá átt sem hv. þingmaður er að vísa til. Eins og hefur komið fram í umræðum hér á Alþingi að undanförnu, í síðustu viku þegar rætt var um annað frumvarp er fjallar um olíugjald þá er ekki mjög langur tími liðinn síðan kerfið var tekið upp og áður en farið verður frekar út í að stilla af, eins og reyndar er talað um í greinargerð og forsendum með þessu frumvarpi, þá þarf að kanna hvaða áhrif þessar breytingar hafa haft. Þá mun væntanlega koma í ljós hvort það sem hv. þingmaður var að tala um er rétt eða rangt. Eins hvaða áhrif breytingarnar hafa haft á aðra aðila og hvort þær eru upp eða niður, hvort þær eru réttlætanlegar eða ekki og það verður þá auðvitað að skoðast í samhengi við þá hluti sem ætlunin er að nota þetta gjald til.

Til að endurtaka það, þá hef ég ekki séð þessar upplýsingar eða þá reikninga sem liggja að baki þeim upplýsingum sem hv. þingmaður nefndi og get þar af leiðandi ekki tjáð mig um það hér og nú.