Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 17:33:56 (2497)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

363. mál
[17:33]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held og hef áður sagt að við eigum eftir að gera margar lagfæringar á olíugjaldslögunum innan eins til tveggja ára og ég skal að sjálfsögðu taka þátt í þeim lagfæringum sem verða til bóta. En þetta sýnir auðvitað þá mörgu vankanta sem við jafnaðarmenn bentum á við þessa upptöku og þann hraða sem var á þessu.

Það mál sem ég gerði hér að umtalsefni, þ.e. aukna skattheimtu af rekstri strætisvagna, er bara borðleggjandi, þannig er þetta frá þessum fyrirtækjum og kemur fram í umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess frumvarps sem við jafnaðarmenn fluttum hér um tímabundna lækkun á bensíngjaldi og olíugjaldi, þetta kemur þar fram. Þetta er einn af þeim þáttum sem við bentum á, þ.e. að þungaskatturinn var aldrei með virðisaukaskatti og 80% endurgreiðsla til strætisvagna var bara 80% endurgreiðsla af þungaskattinum.

Nú var tekið upp olíugjald og bætt ofan á virðisaukaskattinn og þá er framkvæmdin þannig að fjármálaráðherra endurgreiðir strætisvagnarekendum þann hluta af olíugjaldinu sem er utan við virðisaukaskatt og virðisaukaskatturinn verður eftir. Þá er komið á daginn, virðulegi forseti, það sem við sögðum og vöruðum við að hæstv. ríkisstjórn með fjármálaráðherra þáverandi, Geir H. Haarde núverandi formann Sjálfstæðisflokksins, í broddi fylkingar, var rétt enn einu sinni að auka skattheimtu af umferð í landinu. Það getur vel verið að ég geti fundið fleiri dæmi, að það sé ekki bara strætisvagnarekstur. Svo skulum við líka hafa í huga að sumir eru með þannig rekstur og hafa leyfi til að nota hann til innskatts en þetta hvað varðar strætisvagnana er borðleggjandi dæmi, virðulegi forseti, þó að ég sé svo sem ekkert að ganga hér eftir frekari svörum frá hæstv. fjármálaráðherra sem ekki hefur kynnt sér þetta mál eins og hér hefur komið fram og ekki séð þessa útreikninga.

En ég hvet til þess að það verði gert svo nefndarmenn stjórnarflokkanna í efnahags- og viðskiptanefnd geti þá tekið tillit til þessa atriðis.