Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 17:38:43 (2499)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

371. mál
[17:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mér finnst það nú alveg verðskulda nokkur orð af hálfu einhverra þingmanna að hæstv. ráðherra mælir hér fyrir þessu frumvarpi. Þó að það sé ekki stórt að vöxtum eða þykkt er það býsna mikilvægt að mínu mati því að hér er verið að festa í lög aðgerð sem tryggir betur en ella stöðu lífeyrissjóðanna og treystir þá í sessi til þess að standa undir þeim skuldbindingum og væntingum sem við þá eru bundnar. Ég held að ástæða sé til að fagna því að í framhaldi af því merka samstarfi sem tókst um afgreiðslu þessara mála á árunum 1996–1998 eða hvenær það nú var … (Gripið fram í: 1971.) Já, ég veit hvenær þetta hófst en síðan var lífeyrissjóðakerfið fest í sessi með mjög afgerandi hætti bæði með samstöðu aðila vinnumarkaðarins og lagasetningu hér á Alþingi sem lögfesti 10% lámarksgreiðslur þannig að á þeim grunni hefur verið byggt síðan.

Ef maður fer aðeins lengra aftur í tímann er náttúrlega alveg ljóst að sú hreyfing sem komst á þessi mál á Íslandi um 1970 og samkomulag aðila vinnumarkaðarins um að hefja uppbyggingu söfnunarsjóða um það leyti var stórmerk aðgerð í íslensku samfélagi og ástæða til að hrósa þeim mönnum sem þar stóðu að verki fyrir framsýni. Það hefur síðan leitt til þess að Ísland er í allt annarri og betri stöðu eða vænlegri stöðu í þessum efnum en flest nálæg ríki vegna þess að við eigum hér öfluga samtryggingarlífeyrissjóði sem byggja á skylduaðild og tryggum greiðslum og byggja á sjóðssöfnun en ekki gegnumstreymi og allt skiptir það máli í þessu sambandi. Það leið hins vegar langur tími þangað til þetta verk var klárað með því að tryggja með lagabreytingum að greitt væri af öllum launum í lífeyrissjóði, ekki bara dagvinnulaunum eða einhverjum hluta af launum, og með því að tryggja að allir skyldu taka þátt í uppbyggingu slíks kerfis, líka sjálfstætt starfandi atvinnurekendur og aðrir hópar sem höfðu verið á vinnumarkaði og höfðu ýmist mun seinna eða jafnvel alls ekki hafið greiðslur í lífeyrissjóði þegar þetta samkomulag var gert ásamt lagabreytingum 1996.

Sú ráðstöfun að hækka lágmarksiðgjöldin úr 10% í 12% er auðvitað heilmikil aðgerð því að þetta er nú býsna mikil hækkun ef horft er til þess hlutfallslega og að mínu mati er ástæða til að fagna því að um þetta hefur tekist samkomulag og ég ætla svo sannarlega að vona að menn beri hér eftir sem hingað til gæfu til og hafi framsýni til þess að verja þetta kerfi. Auðvitað hefur oft á tíðum komið upp sú umræða að því ætti að breyta og það ætti að fara á markaðstorgið og menn færa fram ýmis frelsisrök og guð má vita hvað fyrir því að það eigi bara hver og einn að geta haft þetta eins og hann vill. En algjör undirstaða þessa kerfis er samtryggingin sem í því er fólgin og hún hefur farið vaxandi, m.a. með sameiningu lífeyrissjóða þannig að kerfið hefur styrkst með færri og öflugri sjóðum sem dreifir líka betur ýmsum áhættuþáttum í þessum rekstri.

Þetta var nú aðalerindi mitt hingað, frú forseti, að fagna þessu. Svo að öðru leyti vil ég bara aðeins spyrja um það hvaða lagaráðstafanir aðrar kunni að þurfa að gera sem þessu tengjast. Það er a.m.k. ljóst að félagsmálanefnd hefur upplýsingar um að eitt atriði þarf að laga annaðhvort strax eða síðar og það varðar það að Ábyrgðasjóður launa, sem greiðir laun við gjaldþrot fyrirtækja og greiðir jafnframt gjaldfallin lífeyrisiðgjöld fyrir það tímabil, er samkvæmt þeim lögum sem hann starfar eftir eingöngu skyldugur til að greiða miðað við 10%. Því þarf að kippa í liðinn þannig að menn fái bættan þann lífeyrisrétt sem þeir höfðu áunnið sér á því tímabili sem þeir áttu að fá greidd laun frá fyrirtækjum sem síðan hafa komist í þrot og málin lent hjá Ábyrgðasjóði. Ef það er nú það eina sem þarna kemur við sögu er það auðvitað fljótgert en það kann þó að vera víðar, ég skal ekkert um það segja.

Síðan eru hér einnig á ferðinni minni háttar breytingar sem lúta að þeim reglum sem gilda um fjárfestingarheimildir til lífeyrissjóðanna. Það er nú ekki mikið um þetta sagt hér í greinargerðinni, satt best að segja, enda eru þær kannski ekki stórvægilegar. Þó er talað þar um breyttar aðstæður á fjármálamarkaði og ég hefði haft áhuga á því að heyra aðeins betur hvar skórinn kreppir þar að. Ég gef mér að það sé ekki verið að breyta þessum ákvæðum í þá átt að draga úr þeim lagaskyldum lífeyrissjóðanna að lágmarka áhættu sína í hverju tilviki, sem er mjög mikilvægt atriði og mun mikilvægara í mínum huga en að hafa þessa stífu áherslu á að lífeyrissjóðirnir þurfi alltaf að leita mestu ávöxtunar á hverjum tíma. Ef annað markmiðið á að víkja fyrir hinu þá er ég a.m.k. ekki í neinum vafa hvort það á að vera, þá á að velja þá leiðina sem er almennt séð tryggari og áhættuminni, því að það er ákaflega sárt ef þannig fer með fjármuni af þessu tagi, þ.e. sem safnað er inn á grundvelli skylduaðildar og eiga síðan að standa undir greiðslum fólks, að þeir glatist fyrir einhvern glannaskap.

Hitt er alltaf miklu, miklu umdeilanlegra hvort einhverjar ákvarðanir voru eftir á að hyggja alveg réttar í því skyni að reyna að ná í sem mesta ávöxtun eða hámarksávöxtun enda getur það nú oltið á ýmsa vegu eins og kunnugt er. Það má jafnvel færa fyrir því rök að lífeyrissjóðirnir eigi jafnvel líka að hafa að einhverju leyti félagsleg eða siðræn viðmið þegar þeir ávaxta sjóði sína. Það eru t.d. gerðar kröfur til slíkra hluta sums staðar í nágrannalöndunum. Það hefur ekki mikið komist á dagskrá hér en því skyldi það ekki rætt hér rétt eins og ég veit að t.d. hefur verið rækilega rætt í Svíþjóð hvað varðar ávöxtun af svipuðum toga, að það sé þó aldrei fjárfest í fyrirbærum sem beinlínis reki stefnu, segjum t.d. í umhverfismálum eða í samskiptum við þróunarlönd eða annað því um líkt sem menn vilja ekki leggja nafn sitt við? Þá hafa menn gripið til þess ráðs að setja vissan ramma, kannski siðrænan ramma, um það á hvaða grunni slíkar fjárfestingar eigi að byggja á í þessum efnum.

Frægar eru deilur í Noregi og einnig lyktir þess máls að norska þingið setti reglur um fjárfestingar norska olíusjóðsins þar sem eru alveg skýr fyrirmæli um að hann skuli ekki fjárfesta í starfsemi sem vafasöm getur talist að þeirra dómi og honum er ætlað að halda sig utan við vopnaviðskipti og annað slíkt. Ég nefni þetta nú ekki vegna þess að ég hafi mikla trú á því eða miklar áhyggjur af því að íslenskir lífeyrissjóðir fari að reyna að ávaxta fé sitt í slíku, ég nefni þetta fremur sem vangaveltur um grundvallarviðmið þegar að því kemur að velta þessum reglum fyrir sér, því að auðvitað eru þær ekkert óumbreytanlegar og það má alveg ræða þau ákvæði sem nú er starfað eftir og voru lögfest 1996, eða líklega var það 1997, og voru að verulegu leyti fyrir í eldri lögum.

Spurningin er hvort hæstv. fjármálaráðherra færi aðeins betur yfir það hvað það er sem varðar breyttar aðstæður á fjármálamarkaði og ætlunin er að rýmka eða auðvelda starfsumhverfi lífeyrissjóðanna gagnvart.