Greiðslur til foreldra langveikra barna

Mánudaginn 05. desember 2005, kl. 17:01:10 (2576)


132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[17:01]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér urðu það vissulega vonbrigði að hæstv. ráðherra skuli ekki taka undir það að hækka þessar greiðslur sem eru skammarlega lágar og skuli ekki taka undir að skoða það að miða þær við þær breytingar sem hafa verið gerðar á atvinnuleysisbótakerfinu. Sömuleiðis veldur það mér vonbrigðum að hæstv. ráðherra virðist lítið, a.m.k. í ræðustólnum áðan, vilja hreyfa sig varðandi gildissvið laganna og opna fyrir að lögin nái einnig til þeirra sem greinst hafa með alvarleg veikindi eða fötlun nú þegar. Þá er ég að tala um alvarlegustu tilvikin.

Ég ítreka þá ósk mína að hæstv. ráðherra láti kortleggja í ráðuneyti sínu hvað við værum að tala um mikinn fjölda ef við opnuðum fyrir þá foreldra sem geta ekki verið á vinnumarkaðnum og hafa misst vinnu sína vegna alvarlegrar fötlunar eða veikinda barna. Ég held að mikilvægt sé að við kortleggjum það mál og sjáum hvað það væri stór viðbót að taka þennan hóp undir lögin sem ég tel raunverulega vera grundvallaratriði að þingið geri.

Varðandi framkvæmdina og hvað er alvarlegur og langvinnur sjúkdómur eða alvarleg fötlun, eins og gildissvið laganna tekur til, þá vísar ráðherrann í þrjá fyrstu flokkana af fimm sem falla undir umönnunargreiðslur og segir að stuðst hafi verið við það en síðan segir hæstv. ráðherra, ef ég skildi hann rétt, að þetta væri síðan háð mati framkvæmdaraðila. Ég veit ekki hvort við getum sett svona matskennt ákvæði, samþykkt það hér og sett það í hendur á framkvæmdaraðila sem ekki einu sinni er skilgreindur í þessu lagafrumvarpi heldur á félagsmálaráðherra að ákveða „með reglugerð hvaða aðila hann felur framkvæmd laga þessara.“ Mér finnst þetta allt of opið og óljóst hverjir falla undir þessi lög. Ég spyr því ráðherrann: Hver er það sem er líklegur aðili til að vera framkvæmdaraðili þessa máls? Er það Tryggingastofnun ríkisins sem ráðherrann er að tala um og telur hann að það þurfi ekki að skilgreina gildissviðið nánar en hér er gert?