Greiðslur til foreldra langveikra barna

Mánudaginn 05. desember 2005, kl. 17:06:27 (2579)


132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[17:06]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns vil ég ítreka að sú nefnd sem lagði þær breytingar til sem hér eru ræddar hefur ekki verið að störfum hvað varðar umfjöllun um rétt foreldra barna á vinnumarkaði vegna veikinda þeirra. Ég vil ekkert útiloka hvað verður í þeim efnum um alla framtíð, hæstv. forseti. Ég vona að hv. þingmaður skilji mig ekki þannig.

Hins vegar verðum við að hafa í heiðri þá grundvallarreglu vinnumarkaðar okkar að málefni sem varða kjarasamninga eru til umfjöllunar milli aðila vinnumarkaðarins og ekki hefur verið vilji til að grípa þar inn í með freklegum hætti. En ég vil ekki að orð mín séu skilin þannig að ég útiloki það um alla framtíð að það kunni að koma til einhverra frekari tillagna af minni hálfu í þessum efnum.