Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Mánudaginn 05. desember 2005, kl. 17:46:43 (2586)


132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[17:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það kveður kannski við annan tón hjá hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli en síðustu vikur og daga. Á máli hæstv. menntamálaráðherra hefur mátt skilja að tryggasta leiðin til að efla stofnanir sé að skera niður framlög til þeirra — sem dæmi má nefna Háskólann á Akureyri — og til að efla fræðasvið eða umhverfi heilu listgreinanna sé árangursríkast að leggja niður menntastofnanir þær er kenna viðkomandi fag — sem dæmi má nefna Listdansskóla Íslands. Hér er þó ekki verið að leggja til að stofnanir verði lagðar niður heldur sameinaðar, þ.e. fimm stofnanir eru settar undir einn hatt, Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.

Nú er það svo, virðulegur forseti, að þessar stofnanir, Íslensk málstöð, Orðabók Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun Íslands, eru að mörgu leyti ólíkar. Að einu leyti má segja að þetta séu allt gamlar og mjög grónar stofnanir og gæta þurfi sérstakrar varkárni þegar þær eru sameinaðar en að öðru leyti verður að gæta að því að þessar stofnanir hafa ólík hlutverk. Annars vegar er um þrjár rannsóknarstofnanir að ræða, hreinar og klárar rannsóknarstofnanir, sem hafa haft mikil eða mismikil samskipti við Háskóla Íslands og hafa beinlínis heyrt undir hann. Hins vegar er um að ræða þjónustustofnanir. Það verður að tryggja að undir einum hatti verði hinna ólíku sviða þessara ólíku stofnana nægilega vel gætt þannig að ekki sé gengið á eitt umfram annað. Þess vegna hefði ég viljað sjá í þessu frumvarpi einhvers konar hugmyndir um deildaskiptingu þessarar stofnunar.

Í þessu frumvarpi virðist allt eiga að fara undir einn hatt, undir þennan eina forstöðumann sem virðist eiga að hafa vottorð frá almættinu um að hann hafi svo víðtæka menntun og reynslu að hann geti stjórnað þessu öllu án þess að hafa um það t.d. samráð við sérfræðinga eins og þó er kveðið á um í núgildandi lögum um stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Í þeim lögum segir að sérstakur forstöðumaður skuli annast rekstur stofnunarinnar. Hann eigi að annast fræðilega stjórn ásamt öðrum starfsmönnum sem eru allir sérfræðingar, hver á sínu sviði. Í þessu frumvarpi er ekkert kveðið á um að viðkomandi forstöðumaður eigi að hafa samstarf við sína sérfræðinga. Hann getur verið algerlega einangraður í sínum fílabeinsturni ef þannig verkast. Ég teldi því verulegan feng að því að koma inn ákveðnum breytingum um þetta mál, t.d. hvað deildaskiptingu stofnunarinnar varðar, og alveg skilyrðislaust að forstöðumaðurinn sé ekki einn á báti í sínu stjórnunarherbergi í brúnni heldur sé það beinlínis áskilið í lögunum, líkt og er í dag, að hann annist fræðilega stjórn stofnunarinnar ásamt þeim sérfræðingum sem þar vinna. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt ef vel á að takast til í þessum efnum.

Hæstv. menntamálaráðherra segir í inngangsræðu sinni að málið hafi verið unnið í nánu samráði við alla forstöðumenn þessara stofnana en lét þess ekki getið hvort einhverjar athugasemdir forstöðumannanna stæðu enn út af. En, frú forseti, samráð þessa hæstv. menntamálaráðherra hefur helst verið með því móti að leita til hlutaðeigandi eftir að ákvarðanir um breytingar eru teknar. Komi fram óskir um annan framgangsmáta en hæstv. menntamálaráðherra leggur til hafa þær óskir yfirleitt verið hunsaðar, ekki orðið við þeim. Ég tel því að menntamálanefnd Alþingis þurfi að vita og fara rækilega í saumana á því á hvern hátt forstöðumenn þessara stofnana eru sáttir við þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram eða hvort þar greinir eitthvað á milli.

Hæstv. menntamálaráðherra segir símapeningana vera grunninn undir sameiningu þessara stofnana, þ.e. nú séu til peningar til að byggja hús yfir stofnun íslenskra fræða. Það má til sanns vegar færa að rétt sé að nota slíkt tækifæri og auðvitað fagna allir byggingu þessa húss. Það geri ég og tek undir það sem aðrir hafa sagt við þessa umræðu. Ég ítreka jafnframt að stofnanirnar þurfa í nánustu framtíð, jafnvel næstu 5–10 árin, að starfa áfram hver í sínu húsnæðinu, hver á sínu svæðinu á svipuðum nótum og þær gera núna. Ég spyr hvort hér sé ekki um óðagot og flaustur að ræða, að láta sameininguna fara fram 1. september 2006 löngu, löngu áður en sameiginleg aðstaða verður tilbúin. Þetta atriði þarf, að mínu mati, að skoða betur og fara að með varúð.

Ég held ég þurfi að leiðrétta mig: Hv. þm. Mörður Árnason, sem talaði á undan mér, sagði að 10–15 ár gætu liðið þar til þetta hús kæmist í gagnið. (MÁ: 5–10 sagði ég.) Sagðirðu 5–10? Hæstv. forseti, hvað svo sem það verður langur tími þá óttast ég að ef sameiginleg aðstaða er ekki til staðar geti það reynst verulegum vandkvæðum bundið fyrir þennan eina forstöðumann að sinna öllum þessum stofnunum. Þetta eru, eins og ég sagði áðan, grónar stofnanir og hafa hver um sig mjög djúpar rætur og mjög afmarkað svið. Þær hafa starfað eftir ákveðnum reglum og ákveðnum hefðum og þessi sameining gæti reynst þeim erfiðari en ella ef hún er ekki öll komin undir sama þakið.

Ég vara líka við því ráðherraræði sem hér er til staðar. Mér finnst það lýsa þessari ríkisstjórn og hæstv. menntamálaráðherra að jafnvel í háskólastofnunum af því tagi sem við fjöllum um hér er fólki ekki treyst. Sérfræðingum og þeim sem reynsluna hafa er ekki treyst. Í fimm manna stjórn, sem menntamálaráðherra á að skipa stofnuninni, eiga þrír að vera skipaðir samkvæmt tilnefningu háskólaráðs og tveir án tilnefningar, sem gegna ekki störfum við Háskóla Íslands, og annar þeirra er formaður stjórnarinnar. Það þýðir, herra forseti, að formaður stjórnarinnar situr í skjóli ráðherra. Í stofnun af þessu tagi finnst mér ekki eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra þurfi að fara fram á að hún tilnefni þennan forstöðumann. Mér finnst þýðingarmikið að sá eða sú sem stjórnar þessari stofnun hafi náin tengsl við fræðin og þá við Háskóla Íslands. Ég er svolítið uggandi yfir því að slíta eigi tengslin við Háskóla Íslands á þeim nótum sem mér sýnist frumvarpið gera ráð fyrir. Og tengslin við Háskóla Íslands eru slitin til þess að stofnunin og forstöðumaður stjórnarinnar geti heyrt undir ráðherra. Mér finnst gæta tilhneigingar til ráðherraræðis sem ég held að geti verið hættulegt stofnun af þessu tagi og ég tel nauðsynlegt að hér sé enn farið að með gát og varúð. Það er ekki hollt, hvorki svona stofnun né öðrum menningarstofnunum, að hafa það ævinlega á tilfinningunni að allt vald komi að ofan.

Í mínum huga kemur vald þessarar stofnunar úr fræðunum sjálfum, það eru þau sem hér verður að hafa í huga, það eru þau sem fókusinn verður að hvíla á. Það á ekki að vera aðalatriðið að menntamálaráðherra eigi einhver ítök eða að forstöðumaður stjórnar, eða hver sem verður prímus mótor í stjórn stofnunarinnar, þurfi að sitja í skjóli hæstv. menntamálaráðherra. Ég vara við þessum slitum við Háskóla Íslands og að þau tengsl verði færð yfir til ráðherrans. Ég minni á að í 1. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, eins og þau eru í gildi í dag, er gert ráð fyrir því að stofnunin sé háskólastofnun með sérstakri stjórn og sjálfstæðum fjárhag og heyri vissulega undir menntamálaráðherra eins og aðrar menningarstofnanir gera — en hún er háskólastofnun, skilgreind háskólastofnun. Sú skilgreining fer út samkvæmt þessu frumvarpi. Þar er ég ekki viss um að ég sé sammála hæstv. ráðherra. Að mínu mati þarf að gaumgæfa nokkuð mörg atriði áður en hægt er að fagna því að stofnanirnar skuli stefna undir einn hatt og undir eitt þak.

Hæstv. forseti. Ég held að í 1. umr. hafi ég svo sem ekki nein önnur sjónarmið en þessi. Ég get tekið undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar, að þessi umsögn fjármálaráðuneytisins, fjárlagaskrifstofunnar, vekur auðvitað athygli. Ég sé ekki að menn hafi farið nægilega djúpt í saumana á því hvaða staða gæti komið upp í þessum efnum og tel því mjög mikilvægt að menntamálanefnd Alþingis fái um það haldbetri upplýsingar en getur að líta í fylgiskjalinu með frumvarpinu. Það er fullsnemmt að fagna þessu máli. Ég hefði talið að jafnrótgrónar og rótfastar stofnanir og hér um ræðir, sem fjalla um þessi öflugu viðkvæmu fræði okkar, eigi það skilið að farið sé að öllu með gát. Ég treysti því að hv. menntamálanefnd skoði málið ofan í kjölinn og tryggi að ekki verði rasað um ráð fram í þeirri sameiningu sem stendur fyrir dyrum.