Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Mánudaginn 05. desember 2005, kl. 18:04:15 (2590)


132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sínu leyti fagnaði ég því að málið var sett fram á þann hátt sem gert er og hæstv. ráðherra leggur ekki til að stofnanir verði skornar niður. Fagnaðarlætin í upphafi málsins voru því varfærin en þau voru samt sem áður fögnuður yfir því að hér væri verið að setja fram mál þar sem hugmyndafræðin virtist vera sú að efla ætti þessar stofnanir. Ég tek undir það, ég tel að efla eigi þessar stofnanir. Ég tel alla möguleika á því að við getum gert það með þessari sameiningu. Efasemdir mínar lúta að spurningunni um hvort stofnanirnar verða tilbúnar til að fara út í þá vinnu sem þarf að vinnast áður en hið sameiginlega þak verður komið yfir þær. Þess vegna er ég einungis, í vangaveltum mínum og hugleiðingum, að láta í ljós þau sjónarmið að ég telji að slík sameining þurfi að fara fram að vel athuguðu máli og ekki megi hraða henni. Ég tel að stofnanirnar verði sjálfar að ráða ferðinni og prinsippinu sem þær sjálfar vinna eftir. Ég fagna hins vegar öllum tilraunum hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar til að efla íslenska menningu ef alvara er þar að baki, sem mér sýnist vera í þessu máli. Mér sýnist fólk vilja standa af alvöru við bakið á Stofnun íslenskra fræða, það á að standa af myndarskap að því er virðist að þeirri nýbyggingu sem reisa á á háskólasvæðinu. Ég fagna ég því, ég sagði það reyndar í ræðu minni líka. Ég held að við hér á Alþingi, stjórn og stjórnarandstaða, getum alveg staðið saman að öllu sem getur orðið til eflingar þessara stofnana og þeirra fræða sem þær sinna.