Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Mánudaginn 05. desember 2005, kl. 18:06:12 (2591)


132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:06]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun. Í þó nokkurn tíma hafa kostir þess að sameina stofnanir á sviði íslenskra fræða verið skoðaðir. En þessar stofnanir eru, eins og fram hefur komið, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Orðabók Háskóla Íslands, Íslensk málstöð, Örnefnastofnun Íslands og Stofnun Sigurðar Nordals.

Í mínum huga er engin spurning að slík sameining mun efla starfsemi þessara stofnana, ekki síst í ljósi þess að í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra um ráðstöfun á söluandvirði Símans er gert ráð fyrir að verja skuli samtals 1.000 millj. kr. til nýbyggingar fyrir Stofnun Íslenskra fræða — Árnastofnun. Þetta verði gjöf íslensku þjóðarinnar til Háskóla Íslands á aldarafmæli hans. Ég fagna því sérstaklega sem fram kemur í frumvarpinu, þ.e. orðalaginu sem kveður skýrt á um náið samstarf við Háskóla Íslands. Í slíkri sameiningu er mikilvægt að vinna málið í góðri samvinnu við hlutaðeigandi aðila. Okkur er annt um þessar stofnanir sem hafa unnið svo gott starf og vonandi mun rannsóknarstarf og miðlun á sviði íslenskra fræða eflast til muna. Það er af hinu góða.

Í máli hæstv. menntamálaráðherra voru tíndir til kostir þessara breytinga og get ég tekið undir þá. Þó vil ég sérstaklega víkja að tveimur atriðum. Í fyrsta lagi tel ég rétt að við skoðum það mjög vel hvort stofnunin setji í skipulag sitt ákveðin svið sem byggja á gömlu stofnunum. Svipuð hugmynd hefur komið fram hér í máli hv. þingmanna. Ástæðan er ekki síst sú að til að byrja með verða stofnanirnar dreifðar eða þar til húsnæðið verður tilbúið — ég vil vera bjartsýn og vonast til að það verði tilbúið á afmæli háskólans — en einnig vegna þess að þær eru mjög misstórar, ein er gríðarlega stór og aðrar minni. Þetta er eitthvað sem við munum skoða og án efa mun hin nýja stjórn hafa skoðun á starfsskipulagi stofnunarinnar, ég ætla að vona það, og því ættum við jafnvel að beina þessu atriði til hennar.

Í öðru lagi er það skoðun mín að við þurfum að staldra aðeins við áður en við fellum úr gildi lögin um Íslenska málnefnd. Sumir eru þeirrar skoðunar að sú breyting sem hér er lögð til muni efla stöðu íslenskunnar og að orðalagið kveði með skýrari hætti á um hvað nefndin eigi að gera, líkt og hæstv. menntamálaráðherra kom inn á. Kannski er það svo. Ég er hins vegar ekki alveg sannfærð um það en tel að þetta sé dæmigert atriði sem við í hv. menntamálanefnd förum yfir og skoðum kosti og galla. Ég er ekki í vafa um að niðurstaða þessa frumvarps mun stórefla alla starfsemi í kringum íslensk fræði. Ég man það þegar ég var í námi í íslensku við Háskóla Íslands hvað mér þótti skrýtið að allar þessar stofnanir væru svo dreifðar. En þetta er að mínu mati gott mál og ég fagna þessu frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra sem við munum síðan vinna áfram í hv. menntamálanefnd.