Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Mánudaginn 05. desember 2005, kl. 18:32:21 (2594)


132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir lokaorð hæstv. ráðherra. Það er nauðsynlegt að við stöndum þannig að málum í menntamálanefnd Alþingis að við getum náð að sameinast um þetta mikilvæga mál og gera það þannig úr garði að markmiðið náist, þ.e. að efla og styrkja stofnanir þær sem um ræðir og það starf sem þar er stundað. Ef það verður brennipunkturinn, ef það verður fókusinn getum við vel við unað áður en yfir lýkur.

Hins vegar kvaddi ég mér hljóðs í andsvar við hæstv. ráðherra þegar hún skýrði á hvern hátt frumvarpið gerir ráð fyrir að bein tengsl hinnar nýju stofnunar og Háskóla Íslands verði mun veikari en nú er á þann hátt að benda okkur á hina fjölbreyttu háskólaflóru sem breyst hefur síðan þessar stofnanir voru settar á fót. Þá kvaddi ég mér hljóðs og hugsaði: Veit ekki hæstv. ráðherra að einungis einn af þessum háskólum er vagga íslenskra fræða og það er Háskóli Íslands?

Svo fór nú hæstv. ráðherra inn á þá braut að rifja það upp með sjálfri sér að sú væri raunin. Tengslin við Háskóla Íslands eru því algjörlega skýr, þau liggja á borðinu. Fyrir nú utan það, eins og fram kemur í greinargerð með 2. gr. frumvarpsins, að orðalagið í 2. gr. tekur mið af sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar í vörslu og umsjón Háskóla Íslands og alveg ljóst að Háskóli Íslands er tengdur Stofnun Árna Magnússonar órjúfanlegum böndum. Við verðum að gæta að því að tengslin við Háskóla Íslands séu þess eðlis að næringin sem flæðir milli háskólans og þessarar stofnunar verði ekki heft, að hún geti haldið áfram að streyma eins og hún hefur gert hingað til.