Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 14:40:56 (2930)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[14:40]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Vegagerð á Íslandi hefur verið fjármögnuð með olíugjaldi og bensíngjaldi. Það er kannski það sem veldur vandkvæðum í þessari lagasetningu vegna þess að sum tækin nota vegina ekki neitt eða mjög lítið. Það eru þau sjónarmið sem menn eru að reyna að taka á í þessu sambandi og það gerir þetta svo óskaplega flókið. Menn eru alltaf að reyna að taka tillit til nýrra og breyttra aðstæðna sem koma fram með nýjum og breyttum tækjum og því hvernig menn bregðast við lagasetningunni.

Það sem menn binda vonir við er sú tækni sem stefnt er að að taka í notkun í Evrópusambandinu, að hafa mæla í bílunum sem mæla vegalengdir sem þeir aka á vegum. Þá geta menn tekið upp annars vegar mengunarskatt sem allir greiddu sem nota bensín og svo hins vegar gjald (Forseti hringir.) fyrir hvern ekinn kílómetra.