Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 14:51:25 (2939)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[14:51]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal á alla mína samúð í þessu máli. Það kom glöggt fram í máli hans áðan að hans einasta von er sú að Brussel bjargi þessu með einhverjum kubbi árið 2011, sem getur þá greint frá því hvert bílarnir hafa farið, a.m.k. hve mikið þeim hefur verið ekið. Ég hef notið þess að sitja í efnahags- og viðskiptanefnd meðan þetta mál hefur verið þar til umfjöllunar en eins og hér hefur komið fram held ég að efasemdir séu í hugum flestra sem sitja í nefndinni. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að þetta væri mjög flókið og það er m.a. þannig úr garði gert að það vinnur á móti því að menn leiti til að mynda eftir sparneytnari ökutækjum. Það mun einfaldlega hækka gjaldið. Það er margt í þessu sem í raun vinnur gegn t.d. viðurkenndum umhverfissjónarmiðum. Þetta er mjög (Forseti hringir.) athyglisvert þannig að ég vildi (Forseti hringir.) spyrja hv. þingmann hvort ekki væri ástæða til að fresta þessu máli (Forseti hringir.) og við reyndum að vinna betur í því.