Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 15:35:32 (2944)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[15:35]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Mér finnst eðlilegt að koma hér að nokkrum efnislegum þáttum þessa frumvarps og fara örlítið yfir forsögu þessara breytinga, bæði þeirra sem gerðar eru nú á þessu lagafrumvarpi og frumvarpinu frá 2004. En áður en þessi kerfisbreyting var gerð bjuggum við við það kerfi að annars vegar var innheimtur þungaskattur eftir kílómetragjaldi, þ.e. bílar voru með mæla og greiddu eftir því mælagjaldi kílómetragjald og þannig myndaðist skattstofn. Í öðrum tilfellum gátu menn greitt eitt fast gjald og voru ekki með mæli og gátu þá keyrt ótakmarkað á því ári án þess að borga neitt viðbótargjald. Þannig varð til mismunun. Þeir sem keyrðu mjög mikið greiddu þetta fasta gjald og keyrðu svo miklu meira og hefðu jafnvel þurft að borga tvöfaldan þungaskatt ef þeir hefðu verið á mælum. Það var Samkeppnisstofnun sem kom að málinu og sagði að þetta bryti samkeppnislög og þess vegna varð þessi kerfisbreyting að eiga sér stað. Allir urðu að vera jafnir fyrir innheimtu þessara laga. Þess vegna var farið út í þetta olíugjald og reynt að koma innheimtunni — við erum eflaust öll sammála um hér á Alþingi að það verður að innheimta einhvers konar gjald sem nýtt er til að byggja upp vegina. Þessu gjaldi var þá þannig breytt að sett var gjald á olíuna, sem verið hefur 41 kr. plús virðisaukaskattur, en hluti af ökutækjum á landi borgar ekkert olíugjald og er þar af leiðandi með litaða olíu sem er gjaldfrjáls. Þannig er kerfið tvöfalt í dag. Þar af leiðandi er mismunun í því. Með því frumvarpi sem hér er lagt fyrir er verið að fara þriðju leiðina, þ.e. að tæki sem eru á gjaldfrjálsri olíu eigi að borga einhvern tiltekinn skatt líka.

Ég hef haft þá skoðun í þessu máli að það væri eðlilegast að reyna að búa þetta kerfi þannig út að það yrði sem einfaldast. Það yrði einfaldast að hafa eitt gjald á alla olíunotkun á landi. Það gjald yrði þar af leiðandi með miklu breiðari grunn, það yrðu miklu fleiri notendur sem borguðu það og þess vegna þyrfti það ekki að vera nærri eins hátt. Það þyrfti engan veginn að vera 41 kr. Ég hef ekki útreikning á því hve hátt þetta gjald þyrfti að vera, en það gæti verið miklu lægra. Þar með yrði olíulítrinn hlutfallslega ódýrari en bensín og þar með er kominn sá hvati sem menn vildu gjarnan fá í kerfið, að einkabílafloti landsmanna verði dísilknúinn. Þar með væri sá hvati kominn. Í þessu kerfi, með því að hafa eitt gjald á alla olíu sem notuð er í landi, getum við um leið raunar farið að hugsa um það gjald, ekki bara sem slit á vegum heldur sem umhverfisgjald, eldsneytisgjald, og það mundi þá verða hvati um leið fyrir alla þá sem reka og gera út olíuknúin tæki að hafa þann rekstur með þeim hætti að hann verði sem ódýrastur, sem hagkvæmastur, sem þýddi að það væri minni olíueyðsla en ella er. Í raun hefur sú breyting sem varð á sl. sumri orðið til að fyrirtæki hafa endurnýjað bílaflota sinn vegna þess að ný tæki eyða minni dísilolíu en gömul tæki. Þannig yrði það hvati að hafa þá hugsun í málinu að um umhverfisgjald væri að ræða, það mundi hvetja menn til þess að ná sér í hagkvæm tæki sem nota dísilolíu.

En kerfið yrði þá líka þannig að eftirlitið yrði nánast óþarft. Ég sé ekki neina þörf fyrir eftirlit ef öll olía á landi yrði með einu gjaldi. Núna, eins og kerfið hefur verið frá því í sumar, og verður ef þetta frumvarp verður að lögum, þarf gríðarlega öflugt eftirlit. Það eru til fyrirtæki sem eru með tugi tækja og þau eru ýmist með gjaldfrjálsa, litaða eða ólitaða olíu. Það er mikill kostnaður því samfara, bæði hjá olíufélögunum og viðkomandi fyrirtækjum, að hafa tækjaflota sinn, sem er í mörgum tilfellum stór, á tvenns konar olíu. Auðvitað kann það að vera einhver freisting hjá mönnum að nota litaða olíu þar sem ekki má nota þá olíu. En sú freisting er ekki fyrir hendi ef við höfum eitt gjald á allri olíunotkun. Þá er sú freisting ekki fyrir hendi, það eru allir jafnir fyrir þessu gjaldi og þá þarf engan eftirlitskostnað. Það þarf engan kostnað við að vera með tvöfalt dreifingarkerfi hvorki hjá olíufyrirtækjunum né hjá notendunum sem eru oft og tíðum verktakafyrirtæki. Það sparar mikið fyrir þjóðfélagið að þurfa ekki að hugsa um það.

Það má jafnframt benda á að með þessari lagabreytingu sem tók gildi í sumar og þeim lögum sem nú liggja hér frammi í frumvarpsdrögum verður vissulega áfram mismunur. Það verður mismunur á milli þeirra tækja og þeirra tegunda tækja sem nota litaða olíu og ólitaða olíu. Það hefur komið fram hér í umræðunni að mismunurinn verður sá að sumir hverjir nota Búkollur eða annars konar tæki en dráttarvélar til að draga fimm tonna vagna eða þyngri. Það er einungis talað um að það eigi að vera mælir ef það eru dráttarvélar sem draga slíka vagna. Þannig að þarna erum við komin með marga þætti sem eru mismunandi. Þeir gera það að verkum að landsmenn fara að fjárfesta í tækjum, einfaldlega til að komast hjá því að borga olíugjaldið. Það er ekki æskilegt. Það verður einungis til þess að kerfið verður flóknara og óhagkvæmara fyrir landið í heild. Ég sé ekki betur en að þá verði flækjustigið enn meira og meiri mismunun verði milli ýmissa verktaka og aðila sem að þessum málum koma. Sveitarfélögin munu að sjálfsögðu fara í að nota dráttarvélar meira en nokkru sinni fyrr og þá með vagna sem eru 4.999 kg að sjálfsögðu. Við erum á þann hátt að stýra fjárfestingum í atvinnurekstrinum og mér finnst að það eigum við ekki að gera.

Eitt gjald er á allt bensín í landinu hvort sem það verður til þess að valda sliti á vegum eða ekki. Það er enginn að fjárfesta óeðlilega í einhverjum bensínvélum til að sleppa við þann skatt. Það er ekki fyrir hendi. Þær sláttuvélar og tæki sem garðyrkjudeildir sveitarfélaganna nota, bensínknúnar, valda ekki sliti á vegum. Menn hafa bara verið sáttir við að hafa eitt gjald og þá fjárfesta menn með tilliti til þess að það er eitt gjald í bensínknúnum vélum. Við erum að beina mönnum inn á að nota annars konar tæki en væri ef eitt gjald næði yfir allt saman. Þess vegna held ég að það sé eðlilegt að koma því inn í þessa umræðu að einn þátturinn er not á vegum en annar þáttur og ekki síðri er umhverfisþátturinn. Við erum að brenna eldsneyti hér í landinu og það er því eðlilegt að hafa þetta eitt gjald og minnka þannig eldsneytisnotkun og gera hana hagkvæmari.

Ég held, frú forseti, að ég hafi komið þeim sjónarmiðum að sem ég vildi í þessu máli og mér fyndist eðlilegra að þetta yrði skoðað með tilliti til þess að við settum á eitt gjald. Það verður greinilega ekki gert að sinni, að mér sýnist, en ég mæli með því, eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að þetta mál verði skoðað eftir áramótin.