Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 16:10:27 (2956)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:10]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um það hvort það var símtal eða eitthvað annað sem olli því að hv. þingmaður hvarf algerlega frá margyfirlýstri skoðun sinni í málinu. Það er náttúrlega mergurinn málsins. Við lögðum þennan vetur upp með það að ætla að hverfa einmitt frá því kerfi sem hv. þingmaður hefur enn þá haldið í. Við ætluðum að fara aðra leið og hv. þingmaður var manna áhugasamastur um það þangað til hann fékk skilaboð um aðra niðurstöðu. Það er ekki hægt að kalla það fagleg vinnubrögð enda er niðurstaðan þannig að kerfið er orðið miklu flóknara en nokkur gerði skóna í upphafi.

Varðandi persónuhelgi og persónuvernd í málinu er óhjákvæmilegt að rifja það upp að í dag eru ferðir hv. þingmanns skráðar í gegnum notkun hans á debet- og kreditkortum. Sömuleiðis er hægt að fá upplýsingar um ferðir manna einungis með því að rekja símtöl þeirra og það hefur verið gert. Ég geri ekki mikið með það að það kynni ekki að vera hægt að skrá ferðir manna t.d. á malarvegum, ég held að það skipti mjög litlu máli.

Það sem skiptir máli er tvennt. Í fyrsta lagi vegalengdin og síðan tími sólarhringsins, vegna þess að ef hægt væri að taka þetta upp væri hægt að taka upp tvenns konar kerfi þannig að mönnum væri beint inn á þá tíma sólarhringsins til aksturs þar sem minnst umferð er. Það var helsta röksemd mín a.m.k. á sínum tíma. Ég er einn af þeim sem ek um vegi landsins skíthræddur við þessa stóru bíla og vil beita þeim tækjum sem við höfum, hagrænum stjórntækjum eins og þessu gjaldi, með þeim hætti að þeim væri frekar beint til aksturs á tímum þegar fjölskyldufólk og smærri bílar eru endranær ekki á ferli. Það er einn af ávinningunum við að taka upp (Forseti hringir.) þetta kerfi.