Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 16:12:40 (2957)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekkert voðalega ánægður með þessa ræðu hv. þingmanns um margyfirlýsta skoðun, það er alltaf eins og hann sé í hanaslag. Við erum ekkert í hanaslag, við erum að reyna að finna góða lausn á málum og það var reynt í efnahags- og viðskiptanefnd á sínum tíma. Ég reyndi mikið að fá lausn á málinu varðandi persónunjósnir og persónuvandamál en hún var bara ekki tilbúin á þeim tíma. (Gripið fram í.) Menn stóðu því frammi fyrir því að þurfa að breyta lögunum, þurfa að hverfa frá því kerfi sem þá var í gildi og yfir í nýtt kerfi. Sú leið sem ég sá og vildi helst fara var bara ekki tilbúin. Það getur vel verið að hún verði tilbúin árið 2011, að menn verði búnir að leysa þessi vandamál þá. En það sem hv. þingmaður sagði um að hægt væri að beina umferð stórra bíla á næturnar og annað slíkt þýðir einmitt að gefa þyrfti upp staðsetningu allra bíla og tímann þannig að einhvers staðar lægju þá fyrir upplýsingar um staðsetningu í kubbnum. Það þýðir líka að hægt væri að fylgjast með því hvar menn væru staddir.

Varðandi það að hægt sé að fylgjast með fólki í dag með debet- og kreditkortum er það einmitt eitt af því sem margoft hefur verið rætt hvort menn séu ekki komnir fulllangt þar í því að geta fylgst með einstaklingnum og hvort sú mikla notkun á debet- og kreditkortum og GSM-símum sé ekki orðin hættuleg fyrir einstaklinginn. Menn hafa reynt að byggja upp kerfi sem gera það ómögulegt fyrir óviðkomandi aðila að komast inn í það. Ég er ekki viss um að allir landsmenn vilji láta t.d. maka sinn fylgjast með því hvar þeir eru á hverjum tíma.