Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 11:24:07 (2997)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[11:24]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, formanni félagsmálanefndar, fyrir þessa yfirferð sína sem skýrði ákaflega vel þá vinnu sem nefndin hefur í þetta lagt og sannarlega er það mikilsvert að margt sem er óskýrt og á köflum erfitt við að una, liggur skýrar fyrir eftir ýmsar upplýsingar sem komu fram í máli hv. formanns.

Eigi að síður verð ég að spyrja hv. formann betur út í hvað valdi því að ekki er lögð fram tillaga af hálfu nefndarinnar um notendaábyrgðina. Það kom alveg skýrt fram í mjög fínni röksemdafærslu hjá hv. þingmanni að það væri sennilega betra fyrir vellíðan og öryggi starfsmannanna að slíkt ákvæði kæmi fram. Hv. þingmaður rakti það líka mjög vel að á fyrri stigum skoðunar málsins af hálfu ASÍ hefði það verið tillaga. Mér er kunnugt um að í nefndinni komu fram mjög sterk viðhorf af hálfu verkalýðshreyfingarinnar sem lutu að þessu og ég spyr: Hvað veldur því að ekki kemur fram tillaga um þetta?

Í annan stað, frú forseti, er auðvitað ekki annað hægt en að segja að hér er verið að draga upp ákveðin pótemkintjöld af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra. Hann leggur fram frumvarp sem hann segir að sé nægilega gott. Það kemur í ljós að hans eigin stofnun segir að það þurfi 12–15 milljónir til þess að hægt sé að uppfylla veigamikinn þátt í frumvarpinu. Hvaðan eiga þeir peningar að koma? Jú, hæstv. ráðherra fer og hristir einhverjar skúffur, opnar þær svo og segir: Jú, hér eru peningarnir.

Þetta er ekki trúverðugt. Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hvort hún sé ekki algjörlega sannfærð um það miðað við þá yfirferð sem hún gaf okkur hérna áðan að þessi lög munu ekki geta náð gildi sínu fyrr en þessir peningar eru fram komnir vegna þess að röksemdafærsla var elegant um einmitt það atriði.