Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 12:01:16 (3005)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 7. desember birtist frétt þar sem vitnað er í Grétar Þorsteinsson, forseta ASÍ. Hann kveðst í samtali við blaðamenn ávallt hafa lagt áherslu á að frumvarpinu yrði ekki breytt. Hann segir enn fremur að Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafi sammælst um frumvarpið eins og það síðan var lagt fram. Hann segir að löggjöfin um starfsmannaleigur hafi verið eitt helsta baráttumál ASÍ að undanförnu. Þrýst hafi verið á slíka löggjöf á síðasta vorþingi en það hafi ekki tekist. Í samkomulaginu er sammælst um frumvarpið eins og það lítur út núna og við leggjum áherslu á að það verði samþykkt þannig.

Nú stendur hv. þingmaður að breytingartillögu á þskj. 507, þar sem veigamikil breyting er gerð á þessu frumvarpi sem er forsenda samkomulagsins. Má ég skilja það þannig, frú forseti, að hv. þingmaður vilji setja kjarasamningana í uppnám?