Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 12:16:17 (3011)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:16]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem ég eða við erum að reyna að gera, að vekja athygli á því að hér sé kannski rangt farið í málið þó við séum alveg sammála því að sjálfsögðu að eitthvað þurfi að gera í þessum málum. Að sjálfsögðu mun frumvarpið verða samþykkt hér og það hlýtur að vera til bóta því að þá er alla vega að einhverju leyti verið að reyna að setja einhver bönd á það ófremdarástand sem varað hefur allt of lengi hér.

Eins og ég sagði áðan er frumvarpið að mörgu leyti gallað. Það eru sem betur fer ákvæði um að lögin skuli endurskoðuð innan tveggja ára frá gildistöku þeirra. Ég ber þá von í brjósti að þegar það gerist, sem ég reikna með, muni Alþingi geta haft eitthvað meira um það að segja hvernig lögin líti út eftir þá endurskoðun.