Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 12:20:34 (3014)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:20]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þau orð sem féllu áðan um að við værum að taka þátt í leikriti eru þess valdandi að ég kem hér upp. Ég er algjörlega ósammála því.

Það er rétt sem hér kom fram að það var mjög vönduð yfirferð í félagsmálanefnd. Það var tíu klukkustunda vinna í málinu á fimm fundum og fengum skriflegar athugasemdir og allt það. Að mínu mati var bráðnauðsynlegt að fara yfir grein fyrir grein í málinu og það var ekki leikrit, það var bráðnauðsynlegt. Þingmenn hafa frelsi til þess að gera breytingar, auðvitað, og nokkrir þingmenn í Vinstri grænum og Samfylkingunni hafa flutt breytingartillögur. Ef þær verða samþykktar verða auðvitað breytingar á frumvarpinu.

Ég vil draga það sérstaklega fram að aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi hafa geysilega mikilvægu hlutverki að gegna. Þeim er falin mikil ábyrgð og þeir njóta ákveðinnar virðingar líka vegna þeirrar ábyrgðar sem þeir hafa staðið undir. Að sumu leyti finnst mér svolítið sjarmerandi að aðilar vinnumarkaðarins geti komið sér saman um viðkvæm mál eins og þetta en það er ekki þar með sagt að við samþykkjum allt sem frá þeim kemur í þingið, alls ekki. En í þessu máli, eftir að hafa farið faglega yfir það, er ég sannfærð um að frumvarpið hefur hitt á hárfína línu. Verið er að setja upp mjög mikilvægt og öflugt kerfi til að taka á starfsmannaleigunum. Ég tel því að frumvarpið sé til stórkostlegra bóta og vil eiga aðild að því.

Ég minni á að það er sérstakt ákvæði um endurskoðun innan tveggja ára í frumvarpinu af því að þetta er svo nýtt og við vitum ekki alveg hvernig þetta mun virka. Við höldum öll að frumvarpið sé til bóta (Forseti hringir.) en það verður endurskoðað ef skerpa má á því.