Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 12:25:07 (3016)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:25]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, leikrit eða leshringur, mér finnst gott að hv. þingmaður telur að umfjöllunin hafi verið vönduð í nefndinni. Hún var mjög vönduð en hv. þingmaður gerir því skóna að hún hafi verið meira og minna óþörf af því að þetta er samningur utan úr bæ. Ég er ekki sammála því. Ég held að umfjöllunin hafi verið algjörlega nauðsynleg vegna þess að ef við hefðum séð mikla meinbugi á málinu hefðum við breytt því.

Helsta málið sem stjórnarandstaðan vildi breyta og var til umræðu í nefndinni var notendafyrirtækjaábyrgðin. Ég rakti það í máli mínu af hverju meiri hlutinn féllst ekki á sérstakar breytingar þar að lútandi. Það er vegna hinna sterku úrræða sem Vinnumálastofnun fær til að stöðva starfsemi ef starfsmannaleigurnar standa sig ekki og greiða ekki þessi réttmætu kjör. Það er geysilega sterkt úrræði. Ég vil að það sé alveg klárt.

Mér finnst svolítið skrýtið þegar þingmenn — og ég er ekki endilega að saka hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson um það — tala um aðila vinnumarkaðarins eins og kontórista úti í bæ eins og þeir skipti litlu máli. Mér finnst aðilar vinnumarkaðarins skipta rosalega miklu máli á íslenskum vinnumarkaði. Þeir hafa sýnt mikla ábyrgð þannig að mér finnst eðlilegt að við tökum mikið mark á þeim þegar þeir ná saman um hluti. En auðvitað þurfum við þegar mál koma hingað inn að fara yfir grein fyrir grein og ef við sjáum einhverja stórkostlega meinbugi á þeim gerum við auðvitað breytingar. Það er alveg klárt að þingmenn hafa frelsi til að gera breytingar en í þessu tilviki teljum við að ef málið fer svona í gegn sé um geysilegt framfaraspor að ræða.