Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 12:44:07 (3022)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:44]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það verður nú að segjast í byrjun að það vakti athygli mína að hv. þm. Ögmundur Jónasson svaraði ekki hv. þm. Pétri H. Blöndal og sætir það nokkurri furðu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði, að ég tel, afskaplega eðlilegrar spurningar í tengslum við þetta mál. Það dugar lítið fyrir menn svona alla jafna að tala um mikilvægi þess að haft sé samráð og samvinna við verkalýðsfélög og aðila vinnumarkaðarins en þrýsta síðan á um það í tengslum við kjarasamninga að hér komi fram og verði samþykkt mál sem þeir eru búnir að vinna — leggja mikið upp úr því að koma þá og vilja breyta því út og suður. Það er nokkuð sérkennilegt í ljósi fyrri ummæla viðkomandi hv. þingmanna.

Það vakti athygli mína að hv. þm. Ögmundur Jónasson kaus að sleppa því að svara fyrirspurn hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það er ekki hægt að halda því fram að sá ágæti maður, hv. þm. Ögmundur Jónasson, eigi erfitt með að tala úr þessum ræðustóli. Hann hefur oft gert það (Gripið fram í: Allt of oft.) og er ekki feiminn við það. En einhverra hluta vegna sá hann ekki ástæðu til að gera það áðan. En við skulum ekki dvelja við það. (ÖJ: Ég var búinn að svara.) Það dugar lítið fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson að kalla að hann hafi verið búinn að svara því við hlustuðum öll á svar hans og það var eðli málsins samkvæmt ekki fullnægjandi og öllum ljóst að hann vék sér undan að svara í fyrra andsvari sínu.

Málið sem við fjöllum um er að mörgu leyti mjög erfitt og snýr að samningi sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu í tengslum við kjarasamninga. Hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við þingmenn í erfiðri stöðu þar sem menn hafa gert ákveðið samkomulag. Það er ekki einhver viljayfirlýsing sem menn vinna út frá heldur er verið að tala um að gera samkomulagið vel niðurneglt eða niðurgreint og í þessu tilfelli snýr það að starfsmannaleigum. Ég dreg engan dul á að ég tel mun auðveldara svo ekki sé dýpra í árinni tekið að vinna mál með öðrum hætti.

Ég fagna því mjög að lögð hefur verið fram breytingartillaga við frumvarpið sem felur í sér að hægt verði að endurskoða það tiltölulega fljótlega og ég tel mjög mikilvægt að gera það sem allra fyrst. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að hafa í huga að engum er heimilt að greiða minna en lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum. Ég held að það skipti máli í umræðu um þessi mál að við gefum ekki nein önnur skilaboð. Það er einfaldlega ekki heimilt og skiptir engu máli hver atvinnurekandinn er, hvort hann er starfsmannaleiga eða einhver annar. Það liggur alveg fyrir. Ef einhver aðili gerir eitthvað annað gerir hann það þvert á lög í landinu.

Málið er flókið og viðkvæmt m.a. vegna þeirra aðstæðna sem eru uppi, þeirra dæma sem upp hafa komið og verið fjallað um í fjölmiðlum og á fleiri stöðum. Ég held að við öll séum sammála um að þau séu fyrir neðan allar hellur. Um það þarf ekkert að fjölyrða. Það er auðvitað framganga aðila sem er fyrir neðan allar hellur. Ég kann engin önnur orð um það. Ég held líka að það sé mjög mikilvægt að við höfum það í huga, sérstaklega hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að við höfum hér stöðu sem aðrir öfunda okkur af. Hver er sú staða? Við erum með mjög sveigjanlegan vinnumarkað. Af hverju skyldi það vera gott? Það leiðir af sér m.a. að við erum með mjög lítið atvinnuleysi.

Ef við berum okkur saman við nágrannalöndin og lönd sem við viljum bera okkur saman við og förum kannski bara til Evrópu, til ESB-landanna t.d., sjáum við allt aðra stöðu uppi þar. Ég hef ekki heyrt neinn einasta aðila halda öðru fram en að ein stærsta ástæðan fyrir þeim gríðarlega vanda sem ESB-löndin eiga við að stríða sé gríðarlegt atvinnuleysi. Ég er að tala um að í sumum þessara stóru landa er 20% atvinnuleysi meðal yngsta fólksins. Það eru flestallir sammála um að það sé vegna þess að vinnumarkaðurinn sé ósveigjanlegur. Jafnmagnað og það er, að þó menn séu sammála um greininguna og að forráðamenn þessara ríkja vilji breyta gengur það mjög illa. Þess vegna skiptir afskaplega miklu máli þegar við breytum lögum sem tengjast vinnumarkaðnum að við sköðum ekki þann sveigjanlega vinnumarkað sem við höfum. Við verðum alltaf að hafa það hugfast.

Ég ætla engum þingmanni, og ég er ekki sammála þeim öllum eins og menn þekkja um lífsskoðanir eða annað, að þá ætla ég engum að vilja koma hér upp atvinnuleysisstigi eins og þekkist í ESB-löndunum. Það liggur alveg fyrir að ef við vöndum okkur ekki við lagasmíð í tengslum við vinnumarkaðinn, ef við förum sömu leið og t.d. ESB-löndin sem eiga við þennan gríðarlega vanda að etja sköpum við aðstæður fyrir atvinnuleysi. Þess vegna tel ég að við höfum farið alveg á ystu nöf við gerð frumvarpsins. Ég vona samt sem áður að ég sé of svartsýnn hvað þetta mál varðar en ég hef áhyggjur þrátt fyrir að viljinn sé góður. Enginn okkar þingmanna og enginn Íslendingur, í það minnsta mjög fáir, vill sjá að hér sé starfsfólk misnotað og ekki borgað í það minnsta lágmarkskjör, hvort sem viðkomandi starfsmaður er innlendur eða erlendur. Viljinn er því góður þegar menn vilja setja ramma um eitthvað sem heita starfsmannaleigur eða annað á vinnumarkaðnum en ég held að við höfum stigið ákveðið skref sem við þurfum að endurskoða við fyrstu hentugleika. Ég held t.d. að skilgreiningin á starfsmannaleigu í frumvarpinu sé nokkuð víð. Það er þó tekið skýrt fram í nefndarálitinu á bls. 2, með leyfi forseta, að:

,,Á fundum nefndarinnar var rætt um skilgreiningu hugtaksins starfsmannaleiga og í einstaka umsögnum kom fram gagnrýni á það hvernig hugtakið er skilgreint í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Til að taka af öll tvímæli skal tekið fram að það er hvorki ætlun löggjafans að lögin nái til þess þegar um tilfallandi lán á starfsmönnum er að ræða, né heldur verktakasamninga.“

Þetta er afskaplega mikilvægt því það hefur viðgengist á vinnumarkaðnum að menn láni starfsmenn í hinum ýmsu greinum og það er ekkert unnið með að þau fyrirtæki þurfi að vera skilgreind sem starfsmannaleigur og getur ekki verið vilji og kemur skýrt fram í nefndarálitinu. Ég vona að það muni halda. Á sama hátt hef ég ákveðnar áhyggjur af því að með því að láta þessa ágætu stofnun, Vinnumálastofnun, sjá um eftirlitið séum við að stíga fyrstu skrefin með opinbert kjaraeftirlit sem t.d. verkalýðsfélögin hafa barist gegn og raunar allir aðilar vinnumarkaðarins vegna þess að við höfum ágætisfyrirkomulag hvað þetta varðar, þ.e. að verkalýðsfélögin hafi eftirlit með því að kjarasamningum sé framfylgt. Ég held að það sé kerfi sem við viljum ekki snúa frá.

Ég held að þegar við förum yfir málið aftur, hvenær sem það verður, ættum við að skoða hvort við getum ekki náð fram markmiðum frumvarpsins með einfaldari hætti. Við þekkjum það að notendafyrirtæki, sem er notendafyrirtækið starfsmannaleiga, sjái í raun um vinnueftirlit og skattgreiðslur viðkomandi starfsmanna þó þeir séu starfsmenn starfsmannaleigna. Sá þáttur er að vísu fyrir dómi. Ég held að ef við mundum setja ákvæði inn um að hægt væri að draga notendafyrirtæki til ábyrgðar ef þau geti ekki sýnt fram á að endurgjaldið sem er borgað fyrir viðkomandi starfsmann svari að minnsta kosti launum hlutaðeigandi lágmarkskjarasamningi að viðbættum ætluðum launatengdum gjöldum og hæfilegri umsýsluþóknun væri hægt að sækja þau til saka og við gætum sleppt skráningu, opinberu kjaraeftirliti og skilgreiningu sem hér er.

Virðulegi forseti. Það er eins með þetta mál og mörg önnur á hv. Alþingi að maður þarf að taka afstöðu til þess hvort í því séu meiri hagsmunir en minni. Ég held að við séum sammála um að það sé ekki vænlegt að setja kjarasamninga í uppnám og ég tel það vera afskaplega skynsamlegt af nefndinni að setja inn endurskoðunarákvæði allra hluta vegna. Ég vonast til þess að áhyggjur mínar eigi ekki við rök að styðjast en ég tel það hins vegar vera grundvallaratriði og mjög mikilvægt að öllum þingmönnum sé það ljóst að við eigum að leggja mikið á okkur til að halda vörð um hinn sveigjanlega vinnumarkað okkar. Við eigum að setja markið hátt. Við eigum að halda þeirri stöðu okkar og helst gera betur að vera með eitt lægsta atvinnuleysisstig sem þekkist. Það gerist ekki af sjálfu sér. Við þurfum ekki annað en að líta til næstu landa til að sjá hvernig á ekki að gera hlutina og eigum að passa okkur á að fara ekki þá leið. Ég vonast til að það sé sátt um það innan Alþingis og meðal þjóðarinnar. Ég hef að vísu engar áhyggjur af því að það sé sátt um það meðal þjóðarinnar enda eru Íslendingar duglegir, þeir vilja hafa störf og vilja vinna og vita að það er einn lykillinn að lífshamingjunni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en vonast til, eins og áður sagði, að áhyggjur mínar af málinu og öðrum sem tengjast kjarasamningum séu ekki á rökum reistar. Mér þykir hins vegar rétt að fara yfir þær og vonast til að við getum á næstu missirum sniðið af þá agnúa sem eru á málinu.