Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 13:47:55 (3039)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:47]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Loksins átti hv. þingmaður kollgátuna, þetta er misskilningur. Hv. þingmaður las þennan texta og komst að því að það sem hann hélt að stæði þar stóð þar einfaldlega ekki og það var misskilningur.

Það sem skiptir mestu máli varðandi þetta er sú staðreynd að það er enginn úti í bæ sem getur beinlínis fyrirskipað þinginu að samþykkja hitt og þetta. Hér er ákveðið vinnuferli. (Gripið fram í.) Já, þeir gera tilraunir til þess, hv. þingmaður, þeir gera stöðugt tilraunir til þess og það á að vera hlutverk okkar að verjast slíkum tilraunum þegar aðrar stofnanir seilast til valda sem eiga samkvæmt lögum og stjórnarskrá að vera innan þessara veggja. Það er alveg eins og ég sagði við hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson fyrr í dag að þetta er eilíf viðleitni en við verjum okkar vald vegna þess að við höfum stjórnarskrána sem vopn okkar í þeirri vörn. Við vinnum starf okkar þannig að nefndirnar fjalla um frumvörp sem hingað koma, hvort heldur þau koma frá einstökum þingmönnum eða ráðherrum, og það er bara þannig að mjög oft kemur í ljós að ágallar eru á þeim, það er hægt að gera hlutina betur. Það er þess vegna sem við höfum þetta vinnuferli sem oftar en ekki bætir töluvert þá smíð sem kemur frá framkvæmdarvaldinu í formi frumvarpa hingað. Þannig er einfaldlega gangur málsins þó að hv. þingmaður líti svo á að hann eigi bara að vera hér eins og einhvers konar ósjálfráða stimpill fyrir stofnanir utan úr bæ. Á þeim tíma sem viðhorf hv. þingmanns verða ríkjandi í þessum sal verður Alþingi að engu orðið.