Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 14:44:17 (3048)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:44]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um starfsmannaleigur. Rétt í byrjun langar mig að nefna enn eitt dæmi úr þeim heimi, þ.e. um það þegar verkamenn eða iðnaðarmenn eru ráðnir í gegnum starfsmannaleigur frá útlöndum.

Á Akranesi starfa nokkrir Litháar í byggingarvinnu. Í ágúst síðastliðnum unnu þeir rúmar 330 klukkustundir og fengu fyrir það greiddar 97 þús. kr. Samkvæmt kjarasamningi hefðu það að lágmarki átt að vera 400 þús. kr. Þetta er ein ástæða þess að verkalýðshreyfingin og fleiri kalla eftir lögum um starfsmannaleigur. Erlent vinnuafl er staðreynd, og væntanlega starfsmannaleigurnar líka, á íslenskum vinnumarkaði. Þessu hafa því miður fylgt miklar deilur og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði eftir lögum um starfsmannaleigur í utandagskrárumræðu á Alþingi þann 6. október 2003.

Hér er komið fram frumvarp. Ég hefði í sjálfu sér viljað að það gengi lengra, þá helst varðandi notendaábyrgð fyrirtækja sem títt hefur verið nefnd í dag og jafnframt varðandi aðgang fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar að upplýsingum um kaup og kjör leigðra starfsmanna. Þess vegna leggjum við fulltrúar Samfylkingarinnar fram breytingartillögu en í henni segir, með leyfi forseta:

„Notendafyrirtæki bera ábyrgð á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra starfskjara sem fullnægi áskilnaði 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigu.“

Yrði þessi tillaga samþykkt mundi það bæta lögin til muna.

Frumvarpið kom frekar seint fram. Þrátt fyrir það tel ég að félagsmálanefnd, undir stjórn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, hafi farið vel í gegnum frumvarpið. Margir voru kallaðir fyrir nefndina og flestum ætti að vera ljóst að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar standa í miklu stappi við starfsmannaleigur og notendafyrirtæki til að fá upplýsingar um kaup og kjör. Svo virðist sem lög um kaup og kjör sé þverbrotin. Við því er reynt að sporna með þessu frumvarpi en sökum þess hve lifandi íslenski vinnumarkaðurinn er og hve skammt mörgum finnst þessi lagasetning ganga leggur félagsmálanefnd fram breytingartillögu um að lögin skulu endurskoðuð innan tveggja ára.

Hæstv. félagsmálaráðherra svaraði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þannig fyrr í dag að honum væri full alvara með frumvarpinu og mundi m.a. vinna að því að leysa þann fjárhagsvanda sem Vinnumálastofnun telur sig lenda í ef hún eigi að fara í öllu að ákvæðum lagafrumvarpsins, um að stofnunin sæki og haldi utan um þær upplýsingar sem þarf. Vinnumálastofnun mun gegna mjög mikilvægu hlutverki.

Nefndarálitið er að mínu viti gott. Á það mun örugglega reyna sem lögskýringargagn í framtíðinni. Það er því bráðnauðsynlegt. Þar kemur m.a. fram að lögunum sé ætlað að koma í veg fyrir undirboð á íslenskum vinnumarkaði og takmarka möguleika á óheilbrigðri samkeppni. Jafnframt kemur fram í nefndarálitinu að notendafyrirtækjum beri að virða gildandi kjarasamninga og lög sem gilda á vinnumarkaði.

Ákvæði 9. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, um störf trúnaðarmanna, heldur gildi sínu samkvæmt nefndarálitinu. Frumvarpið breytir jafnframt ekki eftirlitshlutverki verkalýðsfélaga varðandi skyldu fyrirtækja vegna launþega. Auk þess kemur fram í nefndarálitinu nauðsyn þess að skoða sérstaklega vinnuverndarmál og skattamál varðandi starfsmenn starfsmannaleiga.

Forseti. Það er bráðnauðsynlegt að setja lög um starfsmannaleigur. Þeir sem bera hag launþega fyrir brjósti og vilja að friður ríki á vinnumarkaði telja frumvarpið ekki ganga nógu langt. Með þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir yrðu lögin mun betri. En við í Samfylkingunni styðjum frumvarpið og munum vaka yfir framvindu mála.

Ég verð að segja að það vekur athygli mína að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, með hv. þm. Pétur H. Blöndal í fararbroddi, virðast á móti því að sett séu lög um starfsmannaleigur. Hvers vegna veit ég ekki en það er a.m.k. víst að það var ekki að frumkvæði þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem þetta frumvarp kom fram heldur fyrst og fremst að frumkvæði þingmanna Samfylkingarinnar.