Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 14:52:01 (3053)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:52]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið þekkt á Íslandi í marga áratugi að ríkisstjórnir hafi beitt sér fyrir því að aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og launþegar, nái ákveðnu samkomulagi. Ef menn líta á söguna geta þeir deilt um áhrifin sem þetta hefur haft en ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að í mörgum tilfellum, ef ekki nær öllum, hafi þetta leitt til góðs. Slíkt fyrirkomulag hefur komið í veg fyrir deilur og komið málunum áfram.

Sumir á hinu háa Alþingi segja að með slíku samkomulagi sem ríkisstjórnin stendur fyrir sé löggjafarþingið á einhvern hátt niðurlægt. Menn hafa komið inn á það í dag. Ég hef hlustað á það mér til undrunar, virðulegi forseti. Menn hafa talað um að þeir ættu ekki beygja sig í duftið fyrir fólki úti í bæ sem væri að semja þar o.s.frv. Mér finnst þessi umræða ekki rétt.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa mjög miklar skyldur. Það sem þeir semja um getur haft grundvallarþýðingu fyrir framgang efnahagslífs á Íslandi. Mér finnst eins og menn gleymi því oft hvaða þýðingu kjarasamningar hafa, eins og allir gleymi því hver er grundvallarþýðingin með kjarasamningum. Grundvallarþýðing kjarasamninga í landi eins og Íslandi er friðarskyldan sem fylgir samningunum. Friðarskyldan er grundvallaratriðið og þess vegna er hörmulegt, og ég tek undir það með mönnum, ef einhver ruddamenni nýta sér fáfræði erlendra fátækra verkamanna. Það er hörmulegt og eðlilegt að menn reyni allt hvað þeir geta til að koma í veg fyrir slík óhæfuverk. Hins vegar verður löggjafinn að gæta þess á hverjum tíma að trufla ekki með lagasetningu eðlilega verktakastarfsemi í landinu, sem er eðlileg og mjög nauðsynleg. Þetta er því alltaf vandmeðfarið.

Sumir koma og ræða um samkomulag sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Ég lít þannig á að það hefði mjög mikinn skaða í för með sér til framtíðar ef aðilar vinnumarkaðarins, m.a. Alþýðusamband Íslands, hefðu vantrú á stjórnvöldum. Ég held að allir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, svo og allir stuðningsmenn fyrri ríkisstjórna sem hafa staðið að slíku samkomulagi, líti þannig á að það sé höfuðnauðsyn að fylgja slíku samkomulagi.

Það var gert annað samkomulag en það sem var gert um starfsmannaleigur. Það var líka gert samkomulag um breytingu á atvinnuleysisbótum, um að tekjutengja þær. Það er ekki launungarmál, virðulegi forseti, að ég hef átalið forustumenn atvinnulífsins mjög harðlega fyrir það samkomulag. Ég hef bent þeim á að það einkennist af mjög miklu kæruleysi af þeirra hálfu. Ég hef sagt að það sé ekki bitið úr nálinni með það fyrir vinnumarkaðinn hvað þetta hafi í för með sér. Eigi að síður hvarflar ekki að mér annað en að styðja ríkisstjórnina. Það má ekki gerast nokkurn tíma að ríkisstjórn, hvort sem það er þessi ríkisstjórn eða önnur ríkisstjórn í framtíðinni, geri slíkt samkomulag við aðila vinnumarkaðarins en síðan fari menn að efast um að hún hafi afl til að framfylgja samkomulaginu.

Virðulegi forseti. Mér finnst umræðan í dag, sem lunginn af deginum hefur farið í, koma dálítið á óvart og þessi röksemdafærsla stjórnarandstöðunnar fyrir breytingartillögum hennar ber vott um tvöfaldan móral. Auðvitað hefur stjórnarandstaðan fullan rétt til hvaða skoðunar sem er á hvaða máli sem er. Auðvitað hefur hún í framtíðinni hvaða rétt sem er til að leggja fram breytingartillögur við hvaða löggjöf sem er. Enginn efast um það. En vitandi að það er höfuðnauðsyn fyrir framtíðina að aðilar vinnumarkaðarins geti treyst því að samkomulag sem ríkisstjórn, núverandi eða einhver önnur, hefur gert standist þá finnast mér rökin fyrir breytingartillögum þeirra skrýtin.

Virðulegi forseti. Hvað ef einhver í þinginu, nú eða síðar, kæmi með tillögur og berðist fyrir því að breyta samkomulagi ríkisins, t.d. á þann veg að það stæðist ekki þær lágmarkskröfur sem Alþýðusambandið hefur sett? Væri það ekki að dómi þessa fólks hin mesta svívirða? Eflaust. Ég efast ekki um það. Þess vegna er skrýtið að menn skuli núna eyða deginum í deilur, m.a. um hvort grundvöllur sé fyrir þessum breytingartillögum. Ég held að stjórnarandstaðan ætti að sjá sóma sinn í því vegna aðstæðna og þess sem um er að ræða, samkomulags sem lögleg ríkisstjórn Íslands hefur gert við aðila vinnumarkaðarins, að sleppa bara breytingartillögum sínum. Hún hefur nægan tíma til þess í framtíðinni að vinna að breytingum á löggjöfinni. Tillaga mín er sú að þeir dragi breytingartillögur sínar til baka og láti málin ganga fram eins og þessir þrír aðilar, vinnuveitendur, Alþýðusambandið og ríkisstjórnin, gerðu ráð fyrir.