Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 15:09:19 (3060)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:09]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan að að sjálfsögðu gætu þingmenn komið með þær breytingartillögur sem þeir vildu. Þeim er það heimilt, þeim er það frjálst, það er alveg klárt. Hins vegar er alveg rétt sem hann benti á að þegar menn gera samkomulag eins og þetta þá ætlast aðilar til þess að það haldi og þær breytingartillögur sem hafa komið fram við málið breyta frumvarpinu í eðli sínu. Það er því alveg skiljanlegt að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi bent á það. Ég vildi að lokum ná því fram svo það sé alveg skýrt, að ASÍ og SA stilltu nefndinni ekki upp við vegg heldur sögðu: Við gerum ekki kröfur um breytingar á frumvarpinu. Við virðum það samkomulag sem við höfum gert og frumvarpið felur í sér það samkomulag. Hins vegar virða þeir frelsi okkar til að gera breytingar ef okkur þykir það skynsamlegt. En okkur þykir það bara alls ekki skynsamlegt af því að þetta er samkomulag.