Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 15:21:36 (3066)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:21]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Endemis vitleysa, segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann býr að langri þingreynslu og hefur mikið vit til að fella slíka dóma. Hann svarar hins vegar ekki spurningu minni um það hvort ræður hans hér áðan hafi verið skilaboð frá einhverjum samtökum um að tilteknum samningum verði rift ef Alþingi Íslendinga breyti þessu frumvarpi og samþykki lög, sem það á að gera samkvæmt stjórnarskrá, með öðrum hætti en hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vill sjálfur.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, að hann hefur ekki fylgst með umræðunni í dag. Hann heyrði þess vegna ekki andsvör mín áðan. (EOK: Ég fylgdist með.) Hann virðist ekki hafa gert það. Í ræðu hans kom ekki fram sá skilningur á afstöðu minni sem ég lýsti áðan, þ.e. að ég teldi að í samfélögum þar sem svokallaður ný-korporatismi hefði ekki tíðkast, verulegt samráð ríkisstjórnar og ríkisvalds, verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda um heildarstefnuna í samfélaginu og einkum í efnahagsmálum, að þar sem það hefði ekki gerst þá hefði það verið miður. Ég styð þá samráðsleið. Hún verður hins vegar að fylgja hefðinni í hverju landi fyrir sig. Ég tel ekki heppilegt að samráðið sé með þeim hætti að ríkisstjórn, sem er aðeins hluti ríkisvalds, geri bindandi samninga þannig að hún múlbindi meiri hlutann og þar með stjórnarandstöðuna í þinginu, sem er annar hluti ríkisvaldsins, til að samþykkja það orðalaust og óbreytt. Enda kemur engum samningsaðila þetta til hugar, nema þá að Einar Oddur Kristjánsson beri okkur boð frá samtökum atvinnurekenda um að þau ætli sér að rifta samkomulaginu og muni ekki treysta ríkisvaldinu nokkru sinni framar ef við aukum þann rétt sem um er að ræða í breytingartillögum okkar.