Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 15:23:48 (3067)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:23]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu er ég ekki sendiboði eins né neins. Hvaða hvatir liggja á bak við það hjá hv. þingmanni þegar hann spyr mig slíkra spurninga? Ég er ekki einu sinni fulltrúi jólasveinsins. Ég er ekki fulltrúi eins né neins. (Gripið fram í.) Hvað á að þýða að koma með svona spurningar? Af hverju ætla menn mér að ég sé með einhverjar hótanir þótt ég bendi á að gagnvart framtíðinni, ég fullyrði það, getur verið slæmt ef aðilar vinnumarkaðarins hafa efasemdir um að ríkisvaldið á hverjum tíma standi við gerða samninga. Ég vil bara segja það.

Fyrir framtíðina getur það verið hættulegt. Ég vara menn við því. Auðvitað veit ég ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér frekar en aðrir. En mér finnst liggja í augum uppi að það er mikilvægt að samkomulagið fái staðist og aðilar vinnumarkaðarins treysti því að það sem um er samið standi. Þetta er mjög einfalt og enginn efast um það. Þetta er alveg skýrt.