Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 15:25:07 (3068)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:25]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórn geti náð samningum sín á milli um mikilvæg atriði. Hins vegar er ekki sjálfgefið að allir hlutir séu í samningaferli þar á milli. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að frumvarp til laga um starfsmannaleigur hefði ekki þurft að vera samkomulagsatriði á milli þessara aðila. Það er nokkuð sem Alþingi hefði getað sett lög um, þ.e. hlustað á sjónarmið beggja aðila og fengið þau fram en tekið síðan sjálfstæða afstöðu til þess hvernig slík lög ættu að líta út. Ég tel ekki sjálfgefið að um mál af þessu tagi sé samið í tvíhliða viðræðum og Alþingi sé síðan bundið af því.

En ríkisstjórnin ákvað að fara þessa leið. Það er mikill ávinningur af því er að þessi lög fái framgang. Þar hefur verkalýðshreyfingin unnið gott verk og ég skil vel að ríkisstjórnin er bundin af því samkomulagi sem hún gerir. Það er hins vegar fráleitt að halda fram að þótt stjórnarandstaðan flyti breytingartillögur þá sé þar á ferðinni sýndarmennska. Að sjálfsögðu ekki. Ég sagði áðan að við sátum ekki við samningaborðið. Við hljótum að leggja áherslu á það sem við hefðum viljað sjá í þessum lögum. Við vitum ósköp vel, þegar við flytjum hér breytingartillögu, að það er ekki líklegt að þær nái fram að ganga.

Við flytjum fullt af breytingartillögum við fjárlögin. Það er ekki líklegt að þær nái fram að ganga en það eru ekki sýndartillögur. Það eru tillögur sem sýna hvernig við hefðum viljað standa að málum, hverju við hefðum viljað ná fram hefðum við setið við samningaborðið. Það á við í þessu máli.

Við tökum vissulega afstöðu með sjónarmiðum sem verkalýðshreyfingin hefur haldið fram, sjónarmiðum sem hún hélt fram en náðu ekki fram að ganga í þessari umferð. Við sýnum samstöðu með henni í því tilliti og tökum kannski einn aðila fram yfir annan í þessu þríhliða samkomulagi. En það er mikilvægt að við höldum þeim sjónarmiðum á lofti á Alþingi, hv. þingmaður, og ég frábið mér að lítið sé gert úr því.